Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hittist í Valhöll í morgun klukkan 10:00 og fór Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, yfir stöðuna með þingmönnum sínum. Enda hafði þingflokkurinn ekki hist síðan fyrir jól. Þingmennirnir sem Eyjan.is talaði við voru allir þögulir sem gröfin og sögðu blaðamanninum bara að tala við Bjarna sjálfan.
Bjarni var í viðtali í hádegisfréttum RÚV í dag eftir fundinn og stuttu fyrir sinn annan formlega fund við forystumenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar en hann byrjar klukkan 13:30.
Í hádegisfréttunum sagði hann ágætar líkur á því að mynda ríkisstjórn með þessum flokkum, þótt enn standi mikilvæg atriði útaf. „Það var orðið tímabært að hitta þingflokkinn og fara yfir málin. Gott veganesti fyrir mig til að fara inní viðræðurnar.“
Aðspurður hvort Evrópumálin væru risamál í viðræðunum sagði hann svo ekki vera. Þá var hann spurður hverjir væru veikleikar svona ríkisstjórnar og hann sagði að meirihlutinn á þingi væri tæpur.
Varðandi mögulegt samstarf við Framsókn og Vinstri græna sagði Bjarni að hann hefði tjáð sig áður um það að Sjálfstæðisflokkurinn væri tilbúinn í að vinna með Framsókn í ýmisskonar mynstri. Hann benti á að sjálfstæðismenn hefðu einnig áður talað við Vg og ekkert komið útúr því.