Samkvæmt upplýsingum á vef forsætisráðuneytisins munu málefni menningararfsins færast aftur til menningarmálaráðuneytisins og ekki lengur vera á borði forsætisráðherra.
Á fundi ríkisráðs sem haldinn var í dag féllst forseti Íslands á tillögu Bjarna Benediktssonar alþingismanns um skipun fyrsta ráðuneytis hans og gaf út úrskurð um skiptingu starfa ráðherra, hér má sjá forsetaúrskurð um skiptingu starfa.
Einnig hafa verið gerðar breytingar á forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðuneyta einsog sjá má hér. Samkvæmt þeim úrskurði munu málefni Seðlabanka Íslands færast til forsætisráðuneytisins frá fjármála- og efnahagsráðuneyti en umsýsla hagskýrslugerðar og upplýsinga um landshagi einsog fer fram í Hagstofu Íslands færast frá forsætisráðuneytinu til fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Frá þessu segir á vef forsætisráðuneytisins í dag. En þar segir meðal annars:
Að auki flytjast málefni Vísinda- og tækniráðs og málefni þjóðmenningar frá forsætisráðuneytinu til mennta- og menningarmálaráðuneytis. Þá færast málefni Þingvallaþjóðgarðs, að undanskildum Þingvallabænum, frá forsætisráðuneytinu til umhverfis- og auðlindaráðuneytis og neytendamál færast til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis frá innanríkisráðuneytinu. Loks færast verkefni byggðamála til innanríkisráðuneytis en þau heyrðu áður undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
Börkur Gunnarsson