Ögmundur Jónasson fyrrverandi þingmaður og ráðherra Vinstri grænna mun halda fyrirlestur í Iðnó um alþjóðlega viðskiptasamninga á laugardaginn, fyrirlesturinn mun hefja syrpu opinna borgarafunda um málefni samfélagsins. Fundurinn hefst á hádegi og stendur í klukkutíma. Ögmundur segir í samtali við Eyjuna að fjallað verði um alþjóðlega viðskiptasamninga sem eru nú á vinnsluborðum víða um veröldina og í fyrirlestrinum muni hann færa rök fyrir því að þeir skipti okkur öll máli og eigi að koma okkur öllum við:
Markmiðið með þessum fundi er að örva og skerpa á gagnrýnni hugsun, og meðvitund okkar á mikilvægi þeirra samninga. Þeir mega ekki gerast einhversstaðar fyrir utan okkar heim, við verðum að skilja þá og hafa áhrif á þá. Þetta er ekkert einsdæmi hér að verið sé að efna til umræðna um mál af þessu tagi því það er alltastaðar í Evrópu og í Bandaríkjunum einnig eru menn að vakna til vitundar um mikilvægi þessarra samninga,
segir Ögmundur. Meðal viðskiptasamninga sem verða á dagskrá eru TiSA, T-TIP, samningarnir sem byggðust á gömlu þjónustusamningunum sem Alþjóðaviðskiptastofnunin gekk fyrir, ásamt NAFTA samningum Evrópusambandsins og Bandaríkjanna sem og samningar Bandaríkjanna yfir Kyrrahafið, sem Donald Trump verðandi Bandaríkjaforseti vill setja skorður á:
Þessir samningar taka á öllu regluverki viðskiptaumhverfisins og geta haft gríðarleg samfélagsleg áhrif. Fundurinn hefur það að markmiði að skerpa á sýn okkar á þessa þróun.
Ögmundur segir að vissulega hafi viðskiptasamningar þegar haft mikil áhrif á íslenskt samfélag, en með þessum nýjum samningum sé dýpkað verulega á viðskiptasamstarfi þjóða og þegar það sé gert þá skipti miklu máli að almannahagsmunir séu í fyrirrúmi, en margir efist um að svo sé. Ögmundur hætti á þingi í haust en hann er fjarri því hættur að láta að sér kveða í stjórnmálum:
Ég ákvað að stíga út úr þingsalnum en ég er ekki búinn að gefa upp mína pólitísku önd og þetta er liður í því að halda áfram slíku starfi.
Ari Brynjólfsson – ari@pressan.is