Sigurður Ingi Jóhannsson þingmaður og formaður Framsóknarflokksins og fyrrum forsætisráðherra hefur óskað eftir sérstakri umræðu á Alþingi við Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra, þingmann og formann Viðreisnar. Tilefnið er sala ríkisins (fjármálaráðherra) á Vífilsstaðalandinu svokallaða til Garðabæjar.
Sigurður Ingi tilkynnir þetta á Fésbókarsíðu sinni í dag. Þar vísar hann til gamallar fréttar frá því í desember 2002 þegar byggingarfyrirtæki keyptu hluta úr svokölluðu Arnarneslandi í Garðabæ fyrir 455 milljónir króna.
Þá var verð á hektara fyrir rúmum 15 árum um 10 milljónir (núvirt 20 milljónir+),
skrifar Sigurður Ingi og bætir svo við:
Nú gera þeir Engeyjarfrændur [Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra] samning við Garðabæinn sinn um sölu á ca 2,5 milljónir [króna fyrir] hektarann.
Forsætisráðherran fyrrverandi segir einnig að órætt sé í þinginu hvort ekki væri skynsamlegt að halda eftir lóð undir nýtt þjóðarsjúkrahús.
… enn og aftur finnst Fjármálaráðherra þingið bara vera fyrir – en ekki sjálfsagður vettvangur fyrir skoðanaskipti og grundvöll ákvarðanatöku.
Sala ríkisins á Vífilsstaðalandinu hefur vakið umræður og sætt gagnrýni.
Sjá frétt: Vífilsstaðir seldir – Páll ósáttur.