Sjaldan hefur maður komið í borg þar sem eru jafnmargar og stórar bensínstöðvar og Reykjavík – og það gildir um höfuðborgarsvæðið allt. Inni í borginni eru bensínstöðvar af þeirri tegund sem maður ætti helst von á að sjá við þjóðvegi í Ameríku. Þetta er satt að segja ansi fátítt í borgum, að minnsta kosti í borgum sem fólki þykir áhugavert að heimsækja.
Þetta segir Egill Helgason fjölmiðlamaður í pistli á Eyjunni í dag. Bensínstöðvar eru ekki talið með fögrum mannvirkjum, segir Egill þær frekar einsleitar bæði í útliti sem og varningi.
Í síðustu viku kom álit frá Samkeppniseftirlitinu þar sem lýst var áhyggjum af samkeppnisskilyrðum á eldsneytismarkaðnum í Reykjavík og er það mat Samkeppniseftirlitsins að stefna borgarinnar í skipulagsmálum raski samkeppni á eldsneytismarkaði. Í matsskýrslu Samkeppniseftirlitsins kom fram að vísbendingar að víða væri pottur brotinn þegar kæmi að skipulagsákvörðunum og lóðaúthlutunum sveitarfélaga þar sem ekki væri litið til áhrifa á samkeppni. Þá sér í lagi þá stefnu borgarinnar að úthluta ekki lóðum undir nýjar bensínstöðvar nema önnur sé lögð niður á móti.
Segir Egill það sjálfsagt að Reykjavíkurborg reyni að hamla aðeins gegn fjölda bensínstöðva:
Bensínstöðvarnar eru ekki bara margar, heldur eru þær feikistórar. Í gær ók ég framhjá sérkennilegu mannvirki, sjálfsafgreiðslustöð N1 í Norðlingholti. Þarna standa örfáar bensíndælur á plani sem er á stærð við fótboltavöll. Ég sá ekki að neinn væri að taka bensín þarna. Líklega væri hægt að koma dælunum fyrir á bletti sem væri ekki nema 10 prósent af þessu flæmi. En þá væri bensínstöðin auðvitað ekki jafn rosalega sýnileg eins og hún er núna.
Ein bensínstöð á hverja 671 íbúa á landsbyggðinni
Í stuttri yfirferð yfir vefsíður eldsneytissala á Íslandi kemur í ljós að alls eru 257 bensínstöðvar á landinu. Þar af 76 á höfuðborgarsvæðinu. N1 rekur alls 101 stöðvar, bæði þjónustustöðvar og sjálfsafgreiðslustöðvar, þar af eru 32 á höfuðborgarsvæðinu. Skeljungur og Orkan reka 65 á öllu landinu, þar af 14 á höfuðborgarsvæðinu. Olís og OB reka 72 um allt land, þar af 19 á höfuðborgarsvæðinu. Atlantsolía rekur svo 19 sjálfsafgreiðslustöðvar um allt land, þar af eru 11 á höfuðborgarssvæðinu.
Þessi fjöldi þýðir að það er ein bensínstöð á hverja 1.316 íbúa í landinu þegar miðað er við mannfjöldatölur Hagstofunnar á fjórða ársfjórðungi 2016, 338.450 manns. Á höfuðborgarsvæðinu búa 216.940 manns og þýðir það að það er ein bensínstöð á hverja 2.850 íbúa, og ein bensínstöð á hverja 671 íbúa utan höfuðborgarsvæðisins. Líkt og greint var frá nýverið eru nú fleiri bílar en íbúar á landinu, alls 344.664 ökutæki, þýðir það að það eru 1.395 bílar á bensínstöð á öllu landinu.
Fækkar í Svíþjóð – Fjölgar í Reykjavík
Í Noregi eru 1.580 bensínstöðvar samkvæmt norsku olíustofnuninni, þar af eru 75 í höfuðborginni Osló. Þetta þýðir að í Noregi er ein bensínstöð á hverja 3.189 íbúa, en ein bensínstöð á hverja 8.240 íbúa rúmlega í Osló. Hafa skal í huga að miklar vegalengdir eru víða á landsbyggðinni í Noregi og fjöldi bíla er talsvert lægri en á Íslandi miðað við höfðatölu, rúmlega 2,6 milljón bílar á rúmlega 5 milljón íbúa.
Kjarninn greindi frá árið 2015 að bensínstöðvum hefði fjölgað nokkuð hér á landi undanfarið þvert á þróun í öðrum löndum. Árið 2005 voru alls 3.839 bensínstöðvar í Svíþjóð en sú tala hafði lækkað niður í 2.937 fimm árum síðar. Frá 2005 til 2014 fjölgaði hins vegar bensínstöðvum í Reykjavík um 18, þó skal hafa í huga að tölurnar frá Svíþjóð ná ekki sérstaklega yfir þéttbýlissvæði.