fbpx
Sunnudagur 06.júlí 2025
Eyjan

Silja Dögg: Fjölfarnir vegir orðnir stórhættulegir

Ritstjórn Eyjunnar
Laugardaginn 8. apríl 2017 11:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Silja Dögg Gunnarsdóttir þingkona Framsóknarflokks.

Reykjanes sendi þingmönnum þrjár spurningar og bað þá um svör. Þingmenn í Suðurkjördæmi eru 10. Athyglisvert að sumir svara ekki. Hér koma svör Silju Daggar Gunnarsdóttur þingmanns Framsóknarflokks.

Fyrir liggur að ekkert auka fjármagn verður sett í lagfæringar á Reykjanesbraut eða Grindavíkurveg á þessu ári. Fleiri vegi á Suðurnesjum þarfnast mikilla endurbóta. Er hægt að sætta sig við að þessi fjölfarnasti ferðammastaður landsins þurfi áfram að bíða?

Vegir á Suðurnesjum eru margir orðnir mjög slæmir. Ekki þarf að fjölyrða um varasamt ástand Grindavíkurvegar og Reykjanesbrautar. Það er vel þekkt eftir mikla umfjöllun fjölmiðla í kjölfar hörmulega slysa sem þar hafa orðið nýlega. Því miður eru fleiri fjölfarnir vegir einnig orðnir stórhættulegir og þar má helst nefna Garðveginn og Hafnaveg. Ég varð fyrir vonbrigðum með íbúafund sem haldinn var nýverið í Stapa með ráðherra samgöngumála þar sem ráðherra virtist ekki vera komin með úrbótaáætlun á þessum vegum. Hann kynnti hins vegar hugmyndir sínar um vegatolla, sem ég er ekkert sértstaklega spennt fyrir. Mér líst ekki á það ef hugmyndin er að stilla landsmönnum þannig upp að annað hvort sætti þeir sig við ónýta vegi eða samþykki vegatolla. En núverandi ástand er algerlega óásættanlegt.

Misserum saman hefur verið rætt um að innheimta gjald af þeim mikla fjölda erlendra ferðamanna sem kemur til landsins til að standa undir hluta kostnaðar við uppbyggingu vegakerfis og aðstöðu á fjölförnum ferðamannastöðum. Rætt hefur verið um ferðamannapassa, vegatolla, hækkun á gistináttaskatti, komugjöld o.fl. en ekkert gerist.

Hvaða leið vilt þú fara?

Ferðaþjónustan er orðin ein meginstoð í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. En það er umhugsunarefni hvernig við ætlum að haga tekjudreifingu. Eins og staðan er í dag fá sveitarfélög tekjur af útsvari þeirra sem vinna við ferðaþjónustu auk fasteignaskatta af mannvirkjum sem tilheyra ferðaþjónustunni. Þær tekjur renna af mismiklum þunga til sveitarfélaga og telja sum sig vera nokkuð afskipt vegna þess. Þau telja útgjaldaþrýsting vera fyrir hendi en litlar sem engar tekjur í augsýn til að standa undir nauðsynlegum kostnaði við uppbyggingu og fleira. Við Framsóknarmenn höfum talað fyrir því að beinum tekjum sem ríkið fær af ferðamönnum verði deilt þannig að 1/3 renni beint til ríkisins, 1/3 til sveitarfélaga og 1/3 í uppbyggingarsjóð. Framsóknarflokkurinn vill t.d. endurskoða fyrirkomulag á gistináttagjaldi með það í huga að vinna að réttlátari skiptingu tekna af ferðamönnum. Ein leið til tekjuöflunar fyrir sveitarfélögin væri að láta gistináttagjaldið renna óskipt til þeirra. Ég hef einnig þá skoðun að gistináttagjaldið eigi ekki að vera föstu krónutala, eins og nú er (300 kr) heldur ákveðið hlutfall af gjaldi. Annað býður upp á ranglæti gagnvart þeim sem eru bjóða ódýra gistingu. Að auki hefur Framsóknarflokkurinn ályktað að leggja skuli á komugjald eða náttúrugjald en slíkt gjald gæti skilað nokkrum milljörðum á ári í ríkissjóð.

Eldri borgarar eru hvattir til þátttöku í atvinnulífinu t.d. með því að taka að sér hlutastarf. Á sama tíma eru frítekjumörk sett í 25. þúsund krónur á mánuði. Eftir það verður 45% skerðing á greiðslum frá TR, þannig að viðkomandi heldur eftir skatta aðeins um 30% launanna.

Er þetta ásættanlegt?

Hagur aldraðra var bættur verulega með breytingum á almannatryggingalögunum sem tóku gildi um síðustu áramót. Því til viðbótar munu aldraðir geta farið á hálfan ellilífeyri án tekjuskerðinga frá og með 1. janúar 2018.  Er það hugsað til að hvetja eldra fólk til aukinnar atvinnuþátttöku og sveigjanlegra starfsloka.  Í lögunum má einnig finna ákvæði um samanburð á áhrifum breytinganna á kjörum aldraðra fyrir og eftir breytingar, til að tryggja að lífeyrisþegar gætu unnið fyrir sambærilegri upphæð og fyrir heildarendurskoðun almannatryggingalaganna. Hins vegar má alltaf gera betur og mun ég áfram gera mitt til að stuðla að bættum kjörum lífeyrisþega.

Greinin birtist fyrst í Reykjanesi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Heillandi fól

Óttar Guðmundsson skrifar: Heillandi fól
Eyjan
Fyrir 1 viku

Safna undirskriftum til að skora á Alþingsmenn að stöðva málþófið

Safna undirskriftum til að skora á Alþingsmenn að stöðva málþófið