Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að Íslendingar þurfi tvímælalaust að gera það sem þeir geti til að undirbúa sig fyrir þann möguleika að ráðist verði á almenna borgara. Sagði hann í samtali við RÚV að hann væri sleginn yfir árásinni í Stokkhólmi í dag og að hugur Íslendinga væri hjá Svíum vegna atburðanna í dag þar sem vörubíl var ekið inn í mannfjölda í miðborg Stokkhólms.
Það er nýr veruleiki fyrir okkur að sjá ráðist svona á fólk með þessum ósvífna hætti í höfuðborgum Norðurlandanna og það er mjög ógnvekjandi fyrir okkur öll,
sagði Bjarni. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók í sama streng á Twitter og sagðist sorgmæddur:
Við stöndum með vinum okkar og nágrönnum í Svíþjóð.