Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina lögðu fram tillögu á borgarstjórnarfundi í gær um að hafin yrði uppbygging í Geldinganesi. Var tillagan felld með 9 atkvæðum meirihlutaflokkanna í borgarstjórn, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina sem greiddu atkvæði með tillögunni.
Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks lagði fram tillöguna, segir hún tillöguna lagði fram vegna neyðarástands á húsnæðismálum sem rekja megi til langvarandi lóðaskorts í borginni.
Einblínt er á að nær öll uppbygging fari fram á dýrum þéttingarreitum sem eru að mestu í eigu fjársterkra aðila, sjóða og banka en ekki í eigu Reykjavíkurborgar,
segir Marta. Í tillögunni var lagt til að við skipulagningu íbúðabyggðar á Geldinganesi verði tekið mið af fyrri skipulagshugmyndum. Er þar átt við niðurstöðu skipulagssamkeppni sem Reykjavíkurborg efndi til en úrslit hennar voru tilkynnt í apríl árið 1990. Marta segir að þar sem Reykjavíkurborg eigi land í Geldingarnesi og hafi borgin því öll tök á því að geta úthlutað lóðum þar á viðráðanlegu verði:
Mikilvæg forsenda þess að lækka húsnæðiskostnað sé að auka framboð á lóðum í eigu borgarinnar. Úthlutun lóða í Geldinganesi myndi stórauka framboð á byggingarlóðum í Reykjavík á hagstæðu verði og þannig hafa afgerandi, jákvæð áhrif á íbúðar og leigumarkaðinn.