Arnþór Jónsson formaður SÁÁ staddur í nýu meðferðarstöðinni sem nú er verið að reisa í Vík á Kjalarnesi.
Arnþór Jónsson formaður Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann (SÁÁ) segir að heilbrigðisþjónusta samtakananna stefni nú í þrot á sama tíma og Alþingismenn ræði áfengisfrumvarið „endalausa“ af kappi og elju.
Fjármunir sem ríkið skammti til kaupa á meðferðarþjónustu dugi ekki lengur fyrir launum heilbrigðisstarfsfólksins. Ástæðan sé ekki aukin umsvif í rekstrinum heldur sú stefnumótun ríkisins sem birtist í kjarasamningunum við heilbrigðisstarfsfólk samhliða óbættum niðurskurði frá hruni.
Allir þjónustusamningar milli SÁÁ og Sjúkratrygginga Íslands eru löngu útrunnir. Forstjóri Sjúkratrygginga Íslands kemur fram við SÁÁ eins og yfirráðherra með boðvald yfir lýðræðislega kjörnum fulltrúum okkar og ráðherrum, sem virðast koma og fara eins og gestir í húsi hans.
Arnþór skrifar í pistli á heimasíðu SÁÁ að lýðræðislega kjörnir fulltrúar okkar þurfi andlega vakningu – finna fyrir ábyrgð sinni og átta sig á því hjá hverjum þeir vinna.
Þótt þjónustusamningar SÁÁ við ríkið séu allir útrunnir og framlög ríkisins dugi ekki lengur fyrir launakostnaði hefur SÁÁ haldið óbreyttu þjónustustigi við sína skjólstæðinga – fólk sem glímir við fíknsjúkdóma. En það er augljóst að þannig er ekki hægt að halda áfram endalaust. Stjórnvöld verða að gefa svör við því hvaða fyrirætlanir þau hafa varðandi þjónustu SÁÁ. SÁÁ vill ekkert frekar en að halda rekstri sínum áfram, innleiða nýjungar í starfsemina og veita íslensku samfélagi fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu fyrir vímuefnasjúklinga og aðstandendur þeirra.
Nú er unnið hörðum höndum að byggingu nýrrar meðferðarstöðvar á Vík á Kjalarnesi sem leysa á af hólmi áratuga aðstöðu að Staðarfelli í Dölum.
Nýframkvæmdir í Vík á Kjalarnesi. Ljósm.: Ólafur Kristjánsson.
Við sjáum bjarta framtíð í núverandi uppbyggingu á Vík og frábær tækifæri til samvinnu með ríki og sveitarfélögum til að skapa þjónustu- og þekkingarmiðstöð þar sem hægt væri leysa mörg af aðkallandi vandamálum vegna fíknsjúkdóma í borg og bæ. Víkurlandið er stórt og nýtur bæði kosta sveitarinnar og nálægðar við bæinn.
Formaður SÁÁ segir að fjármunum til meðferða gegn áfengis- og vímuefnafíkn sé vel varið fyrir samfélagið.
Vandamálin sem skapast vegna vímuefnasjúklinga í virkri neyslu eru gríðarmikil og kostnaðarsöm. Sá ábati sem samfélagið hefur af því hvern einasta dag ársins að koma vímuefnasjúku fólki til heilsu og þátttöku á ný í samfélaginu er óumdeilanlegur. Fjársvelti í þessum málaflokki stríðir gegn skynsemi og góðum siðum.
Rauðar súlur sýna árlegt ríkisframlag síðan 2000. Bláu súlurnar eru launakostnaður meðferðarsviðs SÁÁ á sömu árum.