Lögreglumenn segja texta stjórnarsáttmálans rýran og telja að ekki sé nógu sterkt kveðið um eflingu og styrkingu löggæslu í landinu. Þetta segir Snorri Magnússon formaður Landssambands lögreglumanna í samtali við Morgunblaðið í dag. Sigríður Á. Andersen nýr dómsmálaráðherra segir í samtali við Fréttablaðið í dag að öll verkefni í ráðuneytinu séu mikilvæg en það sé mikilvægt að vel takist til með millidómsstigið.
Snorri segir að í stjórnarsáttmálann vanti beinar tillögur um aukið fjármagn til löggæslumála, í kaflanum Lög og regla í stjórnarsáttmálanum segir orðrétt:
„Unnið skal að uppbyggingu löggæslu og sérstaklega skal horft til aukins álags á landsvísu vegna fjölgunar ferðamanna og landamæraeftirlit styrkt. Efla ber getu lögreglu og ákæruvalds til að bregðast við kynferðisbrota- og heimilisofbeldismálum. Lögð verður áhersla á framkvæmd aðgerðaáætlunar um bætta verkferla vegna kynferðisbrota og lagt til við Alþingi að stafrænt kynferðisofbeldi verði skilgreint í hegningarlögum. Þolendum mansals verði veitt fullnægjandi réttarvernd og stuðningur. Til að draga úr endurkomutíðni í fangelsi skal horft til betrunar við stefnumótun í málaflokknum.“
Stofnun millidómsstigs mikil réttarbót
Snorri segir orðalagið almennt og ekkert sem hönd á festir:
Þarna eru orð sem við höfum séð margoft áður og heyrt hjá stjórnmálamönnum þegar þeir mæra lögregluna á tyllidögum. Við munum kalla eftir fundi með nýjum ráðherra og að sjálfsögðu óskum við Sigríði velfarnaðar í starfi. Vonandi tekst henni að ná fram einhverju meiru en þarna kemur fram. Við horfum til þess bjartsýnisaugum og fögnum því að dómsmálaráðuneytið hafi verið stofnað aftur.
Sigríður segir að hennar fyrsta verk verði að koma sér inn í þau mikilvægu verk sem eru unnin í ráðuneytinu, þeim þarf að halda til streitu en of snemmt sé að ræða forgangsröðun verkefna. Hún sóttist ekki eftir dómsmálaráðuneytinu sérstaklega, aðspurð um hvað forveri hennar, Ólöf Nordal, gerði vel í starfi segir Sigríður:
Það er nú svo margt. Mér dettur helst í hug að hefja undirbúning á stofnun millidómstigs sem er mikil réttarbót og hefur lengi verið kallað eftir hér. Það er eitt stærsta mál fráfarandi ríkisstjórnar. Það er það sem mér dettur í hug.
Ari Brynjólfsson – ari@pressan.is