Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir stjórnarflokkana tilbúna til að starfa með stjórnarandstöðunni að sátt um mál í nefndum Alþingis en fyrsta verkefni þingsins, sem kemur saman 24. janúar næstkomandi, verði að koma saman fjármálastefnu næstu fimm ára sem og fjármálaáætlun sem verði grunnurinn að fjárlögum ársins 2018.
Þessi þingmál munu varpa ljósi á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sem er opin til túlkunar í stjórnarsáttmálanum þar sem talað er um sanngjarnt skattaumhverfi sem dragi úr þörf fyrir ívilnanir og afslátt af opinberum gjöldum til að auka alþjóðlega samkeppnishæfni fyrirtækja, en einnig „samræmt kerfi grænna skatta sem fela í sér eðlilegar álögur á mengandi starfsemi og skapa jafnframt hvata til samdráttar í losun og til annarra mótvægisaðgerða“. Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag er sagt að þetta hljómi „óneitanlega eins og fyrirheit um skattahækkanir“.
Meirihluti er meirihluti
Líkt og fram kom í fréttum í gær þá var ákveðið að færa málefni Seðlabankans frá fjármálaráðuneytinu yfir til forsætisráðuneytisins, Bjarni sagði í samtali við Vísi á Bessastöðum í gær að hann vonaðist til að koma á endurskoðun peningastefnunnar í góðan farveg sem fyrst:
„Við getum vonandi sem fyrst komið endurskoðun á peningastefnunni í farveg og í góðri sátt við stjórnarandstöðuna. Þetta eru nokkur mál sem ég get nefnt til að byrja með,“
sagði Bjarni. Ríkisstjórnin er einungis með eins manns meirihluta á þingi, aðspurður um hvort þessi naumi meirihluti þýddi að vandað yrði meira til verka við framlagningu frumvarpa sagði Bjarni að þegar öllu væri á botninn hvolft væri meirihluti meirihluti:
Ég vil nú ekki segja að menn hafi kastað til hendinni en já við munum leggja áherslu á góð vinnubrögð. Auðvitað hefur það áhrif á hvernig menn skipuleggja þingstörfin ef unnið er með tæpan meirihluta. Og já, kannski munum við í nefndunum þurfa að gera viðbótar málamiðlanir. Það er bara allt í lagi.
Ari Brynjólfsson – ari@pressan.is