„Kínverjar brenna kolum til að framleiða vörur og allar vörur sem eru framleiddar í Kína eru því óumhverfisvænar,“ sagði Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur sem tók uppá því að nota veðurfréttatíma RÚV í gærkvöldi til þess að hvetja Íslendinga til að sniðganga vörur frá Kína.
Fyrst sýndi hann á korti línurit sem sýndi hvað meðalhiti á jörðinni hefði aukist mikið frá því að mælingar hófust árið 1850 og fullyrti síðan að svo væri aðallega af mannavöldum.
Blaðamennirnir Freyr Gígja Gunnarsson og Jóhann Bjarni Kolbeinsson fylgja þessu eftir á vef Ruv.is í dag og setja ummæli hans í samhengi. Freyr Gígja bendir á Rannsókn, sem vísindamenn við Maryland og Harvard háskóla gerðu og kynnt var í september, sýndi fram á að vara sem væri framleidd í Kína mengaði mun meira en sambærileg vara frá öðru landi. Hin mikla kolanotkun Kínverja væri ástæðan.
Þá bendir Freyr Gígja á að til dæmis hafi verið hálfgert neyðarástand í Peking um miðjan desember vegna mikillar loftmengunar. Mengunin í borginni hefði mælst átta sinnum meiri en hættumörk.
Í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun sagði Einar Sveinbjörnsson:
Þetta er um það bil 70-75% af allri þeirra orkuframleiðslu til raforkuframleiðslu. Hún er fengin með brennslu á kolum. Og þeir eru svo stórtækir í þessu að þeirra svakalegu kolanámur duga ekki einu sinni, heldur flytja þeir líka inn kol, meðal annars frá Ástralíu. Þeir eru að brenna tíu milljónum tonna á dag af kolum. Til að setja þá tölu í samhengi eru árlegar fiskveiðar alls okkar fiskiskipaflota 1-2 milljónir tonna á ári.
Ef þetta er rétt hjá Einari þá eru Kínverjar að brenna 3,65 milljörðum tonna á hverju ári á meðan fiskiskipaflotinn íslenski brennir 1-2 milljónum tonna.
Á fésbókinni sinni skrifar Gunnlaugur Jónsson, fjárfestir, eftirfarandi um uppátæki veðurfræðingsins:
Þetta eru kannski eðlileg viðbrögð fyrst þegar menn uppgötva að milljarðar manna hafi komist úr sárustu fátækt með hjálp kolaorku. En auðvitað vill fólkið sem andar að sér kolarykinu enn frekar en við breyta þessu. Þegar sú staðreynd rennur upp fyrir manni dettur manni ef til vill eitthvað uppbyggilegra í hug en að ráðast gegn lifibrauði þess. Maður getur t.d. unnið í hreinni orkugjöfum, þ.m.t. olíu og gasi.
Hér má lesa frétt Jóhanns Bjarna og hér má lesa frétt Freys Gígju.