fbpx
Sunnudagur 18.maí 2025
Eyjan

Kappklæddir Brasilíumenn á opnunarhátíð og raunverulegur meistari

Egill Helgason
Laugardaginn 6. ágúst 2016 12:53

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ólympíuleikarnir eru haldnir í landi þar sem allt virtist á uppleið fyrir fáum árum og mikil bjartsýni ríkti. Brasilía var flokkuð með svokölluðum BRICS ríkjum sem áttu að fara að taka yfir heiminn. Síðan hefur syrt í álinn. Vinsælir leiðtogar í Brasilíu hafa reynst spilltir í gegn. Það var baulað hátt á nýjan forseta landsins á Maracana leikvanginum í gær, það er allsendis óvíst um lögmæti hans, fyrri forsetinn hefur tæplega verið settur af með löglegum hætti. Dilma Rousseff var ekki einu sinni viðstödd hátíðina í gær. Þegar Ríó var úthlutað Ólympíuleikunum 2009 virtist framtíðin björt – nú er efnahagur landsins í rúst og sjálfstraustið hefur gufað upp. Meira en helmingur landsmanna segist ekki hafa neinn áhuga á leikunum. Fyrir fáum dögum sætti hinn vinsæli fyrrum forseti, Lula da Silva, ákæru í enn einu hneykslismálinu sem skekur stjórnmálin í landinu.

Setningarathöfn leikanna í gær virtist einhvern veginn bera merki þessa. Hún var einkennilega laus við glaðværð. Nú eru þetta Brasilíumenn, Ríóbúar, frægir fyrir sín stórkostlegu partí. En þetta var á frekar lágum nótum. Vissulega var ágætt að sjónvarpsáhorfendur um allan heim skyldu vera minntir á stór vandamál á heimsvísu – eyðingu skóga og loftslagsbreytingar. Um að gera. En það var eiginlega ekkert stuð.

Maður tók í raun mest eftir því hvað flestir voru kappklæddir. Þegar haldin er kjötkveðjuhátíð í Ríó eru allir léttklæddir. Lífsgleðin vellur út og takturinn dunar. Kannski er þetta gert til að stuða ekki áhorfendur í öðrum löndum – leiðinlegri löndum – þar sem má helst ekki sýna bert hold.

En auðvitað vonar maður að leikarnir fari vel fram, þetta stóra, merkilega og flókna land á það skilið. Ég fylgdist vel með Ólympíuleikunum í Grikklandi fyrir tólf árum. Þeir tókust ágætlega þótt fæstir hefðu trúað því fyrir fram. Það náðist klára mannvirki nokkurn veginn í tæka tíð. Grikkir náðu líka að halda sérlega ljóðræna og fallega opnunarhátíð. Fáum árum síðar kom í ljós að efnahagur landsins var á brauðfótum og Grikkir höfðu í raun aldrei haft efni á að halda Ólympíuleika. Svo komu leikarnir í Peking með sinni hálf fasísku opnunarhátíð sem snerist mestanpart um að sýna vald, mátt og megin.

Að sumu leyti eru Ólympíuleikar einstaklega ógeðfellt fyrirbæri með sínum spilltu nefndarmönnum, þjóðrembingi, borgum sem er umbylt oft á kostnað fátæks fólks, fáránlegum peningaustri, auglýsingum fyrir kók og McDonald’s og lyfjuðum íþróttamönnum. En í hina röndina er þetta staður þar sem þjóðir heims koma saman í friði – við skulum ekki gleyma því að á tíma heimstyrjaldanna tveggja voru engir Ólympíuleikar. Þeir voru ekki haldnir 1916, og ekki 1940 né 1944 þegar þeir hefðu að öllu jöfnu átt að vera á dagskrá.

Á Ólympíuleikum eru líka alltaf ævintýrasögur sem gleðja og gefa von. Nú heyrum við til dæmis söguna af Yusra Mardini, sundkonu frá Sýrlandi, sem keppir undir sérstökum merkjum flóttamanna. Flóttamannaliðið, hið fyrsta sinnar tegundar, er reyndar mjög áhugavert. Yusra er átján ára, tekur þátt í 100 metra skriðsundi og flugsundi. En hún hefur unnið stærra afrek en að komast á Ólympíuleika. Með sundkunnáttu sinni björguðu hún og systir hennar tuttugu flóttamönnum sem voru á opnum báti í Eyjahafinu. Það skiptir engu máli hvernig henni gengur í sundlauginni í Ríó – hún er sigurvegari!
575154e34

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Stjórnarandstaða með pólitískt sjálfsofnæmi

Sigmundur Ernir skrifar: Stjórnarandstaða með pólitískt sjálfsofnæmi
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku
Lögregla rúin trausti
Eyjan
Fyrir 1 viku

„Hinn gullni tími“ – Trump missir sig í Hvíta húsinu

„Hinn gullni tími“ – Trump missir sig í Hvíta húsinu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Bergþór bergmálar málflutning SFS um ofurlaun í fiskvinnslu – „Þetta eru bara orðin hálauna- og, að miklu leyti, kvennastörf“

Bergþór bergmálar málflutning SFS um ofurlaun í fiskvinnslu – „Þetta eru bara orðin hálauna- og, að miklu leyti, kvennastörf“