

Meðfram útkomu bókar um listakonuna Nínu Sæmundsson og sýningu á verkum hennar í Listasafninu, er rætt um hverjir hafi verið að verki þegar stytta hennar Hafmeyjan var sprengd á nýársdag 1960.
Mér finnst ég reyndar hafa heyrt nöfnin, og oftar en einu sinni, en ég hef mjög lélegt minni á kjaftasögur og er búinn að steingleyma því. Ég held samt að margir viti þetta.
Um þetta var stundum rætt á árum áður. Þá fannst mér tónninn einatt vera sá að þetta hefði verið besta mál, að þarna hefði smáborgaraskapur, klisjur og kits fengið á baukinn – listaverkið hefði í raun ekki verðskuldað neitt betra.
Það verður reyndar seint sagt að Hafmeyjan sé stórbrotin list, það er hún ekki, í besta falli er styttan forvitnileg vegna sögu sinnar, en menn geta séð þetta sjálfir með því að labba niður að Tjörn þar sem verkið hefur verið endurreist.
En það skiptir ekki máli, verknaðurinn var ljótur og hugarfarið að baki hans þröngt og andstyggilegt – þótt sumum hafi þótt þetta sniðugt á sínum tíma.
