
Það er heldur illa komið fyrir fjölmiðlun í heiminum þegar hún snýst að stórum hluta um eitthvað sem skrípafígúra eins og Donald Trump segir. Það er ótrúlegt að kosningabárátta í Bandaríkjunum sé aðallega viðbrögð við yfirlýsingum Trumps. Meira að segja Dick Cheney, fyrrverandi varaforseti, sem hugsanlega mæti sækja til saka fyrir stríðsæsingar og stríðsglæpi, stekkur á vagninn og andmælir Trump.
Ólíkt Trump hafði Cheney völd – það er afar ólíklegt að Trump komist nokkurn tíma nær þeim en nú.
Ekki það að framsókn hægri pópúlisma valdi ekki áhyggjum, því það gerir hún. Fréttirnar frá Frakklandi, þar sem Front National, vinnur stórsigra í kosningum, eru grafalvarlegar. Um þetta birtist prýðileg grein í ísraelska dagblaðinu Haaretz þar sem segir að sigur Þjóðfylkingarinnar sé einmitt það sem Isis vonast eftir. Isis sé hinn raunverulegi sigurvegari. Isis nærist á múslimahatri og andúð á innflytjendum – og það sé nægt framboð af slíku þessa dagana.
Isis geti aldrei unnið neitt stríð gegn Vesturlöndum, heldur sé markmiðið einmitt að fá vestræn lýðræðisríki til að varpa burt sínum helgustu gildum – eins og þau séu í raun einskis virði, innantóm orð.