

Hinn mikli flóttamannastraumur í Evrópu hefur að baksviði ris pópúlískra stjórnmálaflokka sem gera út á andúð á innflytjendum. Þessum stjórnmálaöflum vex stöðugt ásmegin, þau verða kokhraustari, peningakistur þeirra stækka, þau ná að færa jafnt og þétt út mörk þess sem er leyfilegt í þjóðfélagsumræðunni. Þar njóta þau samskiptamiðla nútímans – við erum farin að venjast því að sjá þar umræðu sem hefði talist óboðleg fáum árum.
Pútín Rússlandsforseti sér til þess að Þjóðfylkingunni frönsku skortir ekki fé, en vestanhafs fer Donald Trump mikinn í forvali fyrir forsetakosningar, fjölmiðlar virðast ekki geta fengið nóg af þessum lýðskrumara sem fer æ lengra út á braut fasisma.

En það er náttúrlega verst að Trump og þeir sem hugsa eins og hann tjá skoðanir stórra hópa í samfélaginu – sbr. þessa litlu mynd hér að ofan. Þetta gerist ekki í tómarúmi. Þjóðfylking Marine Le Pen vann stórsigur í kosningum í Frakklandi um síðustu helgi – ef þjóðfélagsólgan eykst er ekki hægt að útiloka að hún yrði kjörin forseti. Það myndi í raun þýða algjöra kúvendingu í stjórnmálum í Evrópu. Athyglisvert er að Le Pen vinnur stærstu sigrana meðal fólks úr verkalýðsstétt – meðal þeirra sem eru efnaminnstir.
Svipaðar stjórnmálahreyfingar eru til víða, í Ungverjalandi er birtingarmyndin sérlega andstyggileg, en á hinum friðsömu Norðurlöndum höfum við Svíþjóðardemókrata, Sanna Finna og Þjóðarflokkinn danska.
Það er langt síðan stjórnmálin í Evrópu hafa verið jafn heiftúðug, þröngsýn – jafn full af tortryggni.
Í Þýskalandi hefur svona hreyfingum mestanpart verið haldið niðri, en nú er því spáð að þar geti flokkurinn Alternative für Deutschland farið að sækja verulega á. Hin frjálslynda flóttamannastefna sem var kunngjörð í sumar er farin að reynast Angelu Merkel mjög erfið. Í raun má segja að Merkel hafi verið að bakka út úr henni.
Við sjáum hvernig viðhorfin í flóttamannamálum eru að breytast. Evrópa hinnar frjálsu farar gæti heyrt sögunni til. Hugmyndin þar að baki er góð og göfug, en það verður að segjast eins og er að Schengen riðar til falls. Eins og komið hefur fram í umræðu síðasta sólarhrings á Íslandi er Evrópa algjörlega búin að loka á hælisleitendur frá Albaníu, Makedóníu og Kosovo. Þar hefur verið skellt í lás.
Og nú má segja að ESB sé í raun búið að gera samning við skrattann hvað varðar flóttamenn frá Miðausturlöndum. Tyrkjum verða borgaðar stórar fjárhæðir til að þeir geti haldið aftur af fólksstraumnum frá Sýrlandi og Írak. Þrír milljarðar evra eiga að fara í þetta verkefni, en enn er ekki samkomulag um hverjir skuli borga. Reynt verður að halda flóttamönnunum í Tyrklandi þannig að þeir birtist ekki í Evrópu um leið og áformað er að styrkja ytri landamæri álfunnar. Á tíma þegar straumur flóttamanna fóðrar ris hræðilega ógeðfelldra stjórnmálahreyfinga eru góð ráð dýr – þróun stjórnmálanna vekur mikinn ugg.