

Eygló Harðardóttir vill setja takmarkanir á internetið til að koma í veg fyrir flæði haturs og óþverra. Margir hafa hneykslast yfir þessu í nafni tjáningarfrelsis og það er skiljanlegt – ég held samt að þetta sé ekki illa meint hjá ráðherranum. Þetta eru áhyggjur sem margir deila og ekki vegna þess að þeir séu harðir ritskoðarar, við erum að fá í gegnum netið og samskiptamiðla alls kyns hluti sem við kærum okkur fæst um að hafa nálægt okkur og gera líf okkar daprara og auvirðilegra.
Mörk þess sem er tilhlýðilegt í opinberri umræðu hafa verið að færast til. Við fáum yfir okkur flaum af rasisma, fasisma og samsæriskenningum. Og svo er það allt klámið, maður þarf ekki að smella nema örfáum sinnum til að komast í gróft klám – og það geta börnin líka. Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar pistil um þetta í Fréttablaðið í gær og segir að foreldrar verði að taka afstöðu gegn klámvæðingu.
Foreldrar geta náttúrlega gert sitt til að koma í veg fyrir að börn sjái þetta – en þó aðeins upp að vissu marki. Með aldrinum helga flest börn sér eitthvert einkarými þangað sem foreldrarnir koma ekki – og núorðið er það að miklu leyti í netheimum.
Ég fór að rifja upp hvernig þetta var þegar ég var strákur – og nú tek ég fram að ég tel alls ekki að heimurinn hafi verið eitthvað betri þá. Börn voru að mörgu leyti miklu afskiptari en nú er og lífsbaráttan harðari, bæði í skólum og utan þeirra. Sumir höfðu kannski gott af því að láta senda sig burt frá foreldrum upp í sveit, en öðrum leið illa. Þar gerðist líka ýmislegt sem foreldrar máski fréttu aldrei af.
En ég ætlaði að tala aðeins um klámið og framboðið af því þegar ég var strákur eða skort á framboði.
Það voru til sjoppublöð eins og Tígulgosinn og Glaumgosinn. Virðulegri sjoppur seldu þau reyndar ekki, en hægt var að nálgast þau hjá fornbókasölum. En blöðin voru svo ógeðsleg, illa prentuð, myndirnar ljótar, og eintökin oft svo þvæld að maður hafði varla lyst á að snerta þau.
Það var satt að segja ekkert örvandi við það. Erlendum klámblöðum man ég ekki eftir í bernsku, þau voru mjög fágæt, en einhvern tíma komst ég í röð klámbóka, rauðar pappírskiljur, án mynda. Þær voru á sænsku og voru sumar sögurnar víst skrifaðar af alvöru rithöfundum, þetta var semsagt bókmenntalegt klám og sumt nokkuð gróft. Ég tel mig hafa lært sænsku af því að lesa þessa texta, næsti viðkomustaður minn í sænsku eftir þetta var Strindberg.
En myndefni var af skornum skammti. Ég var áskrifandi að dönsku unglingablaði sem kallaðist Vi Unge. Las þar aðallega greinar um tónlist og kvikmyndir. En þar var líka að finna auglýsingar um plaköt sem unglingarnir gátu hengt upp í herbergi hjá sér. Þetta voru litlir þumlar sem erfitt var að rýna í, en inn á milli mátti greina örsmáar myndir af konum með ber brjóstin. Svo hvarf eitthvað af þessum blöðum, ég hef grun um að frændi minn einn hafi komist í þau, séð brjóstamyndirnar og numið þau á brott.

Svo var það tvöfalda Who-platan Quadrophenia sem kom út þegar ég var 12 ára. Albúm plötunnar var býsna margbrotið, og þar á meða bæklingur með myndinni sem er hér að neðan. Þarna gat maður séð fleiri kvenmansbrjóst og meiri nekt en almennt var að hafa í þá daga. Who gerðu reyndar lag sem heitir Pictures of Lily og fjallar um svona myndir.

Ég hef sennilega búið á nokkru teprulegu heimili – er reyndar tepra sjálfur. Mér fannst illt til þess að hugsa ef foreldrar mínir kæmust að því að ég væri að skoða svona efni, eins og saklaust og það virðist nú. En mörkin lágu líka annars staðar í þá daga. Nokkrum árum fyrr passaði ég mig til dæmis vel á því að pabbi og mamma heyrðu ekki Jónas R. Jónsson syngja „Slappaðu af“ í laginu með Flowers. Ég óttaðist að það myndi stuða þau þegar sungið var um konu að hún væri eins og „brjáluð hundstík“ og jafnvel hafa þau áhrif að ég fengi minna að hlusta á popptónlistina sem sem ég var svo sólginn í.
Eins var það með Hvíta albúm Bítlanna sem ég eignaðist strax og það kom út, þá nýorðinn níu ára. Önnur eins hönnun hafði ekki sést á umslagi plötu, innan í var plakat með lagatextunum og myndum af Bítlunum við leik og störf. Þar á meðal var þessi ljósmynd af Paul McCartney sem ég óttaðist að myndi storka öllu velsæmi. Myndin var reyndar ritskoðuð í bandarísku útgáfu plötunnar, enda sést í punghárin á Paul.

En það má líka benda á að við vorum kannski ekki mikið betri á þessum tímum. Konur voru enn kúgaðar, þeirri áþján hefur að miklu leyti verið létt, það var aldrei talað um kynferðislegt ofbeldi eða heimilisofbeldi, barnaníðingar hétu dónakallar og samkynhneigt fólk var ósýnilegt.