

Hér á heimilinu hafa verið miklar vangaveltur nú seinnipartinn um hvort skólahaldi verði frestað á morgun vegna veðurs. Svona hjóðar spáin.
Vaxandi austan átt í nótt. Snemma í fyrramálið má búast við slæmu skyggni vegna skafrennings víða suðvestanlands, þar með talið á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesbraut. Hvessir enn þegar líður á morguninn og fer að snjóa og búast má við mikilli snjókomu fram eftir degi. Síðdegis milli kl 15. og 18. snýst vindur í hægari vestan átt með éljagangi, fyrst á Reykjanesi. Versnandi veðri er spáð austanlands seint.
Það verður kannski hægt að koma börnunum í skólann, en miðað við þetta gæti verið erfitt að koma þeim heim aftur. Þyrfti jafnvel að kalla út hjálparsveitir til þess.
Það blundar reyndar í mér minning um einhverja bestu daga bernskunnar – dagana þegar skólum var aflýst vegna veðurs. Þetta gerðist örsjaldan en þessir dagar ljóma í minningunni.
Ég man til dæmis einn dag, þá var ég held ég enn í Öldugötuskólanum gamla, það kyngdi niður fönn um nóttina og morguninn. Þegar leið að hádegi lægði og birti til. Þá þustu börnin út. Það var svo mikill snjór að hægt var að grafa löng göng gegnum fannfergið sem hafði safnast í kringum Landakotstúnið.
Ein eins og ég segi, það er óvíst hvort verður skóli á morgun. En það er allavega eitt sem má ekki gera í svo vondu veðri og erfiðri færð: Funda í fjárlaganefnd. Menn geta orðið svo úrillir.