fbpx
Föstudagur 14.nóvember 2025
Eyjan

Vond stjórnsýsla

Egill Helgason
Mánudaginn 30. nóvember 2015 12:02

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eitt af því sem nokkuð góð samstaða ríkir um á Íslandi er að það þurfi að efla heilbrigðiskerfið. Í raun er furðulegt hversu stjórnmálamenn starfa lítt eftir þessu – það er ekkert lát á lýsingum á því hversu kerfið er að niðurlotum komið. Og þær eru trúverðugar – ég hef talað við lækna og hjúkrunarfólk sem lýsir því hversu skelfilega erfiður vinnustaður Landspítalinn er, aðstaða léleg og vinnuálag alltof mikið.

Hið sama er uppi á teningnum í heilsugæslunni, sjálfu hliðinu inn í heilbrigðisþjónustuna, þar er starfsfólkið alltof fátt og engin leið að anna eftirspurninni eftir læknishjálp. Þar virðast ráðamenn helst vera komnir að þeirri niðurstöðu að beri að ráða bót á vandanum með einkavæðingu.

Þess vegna er svo skrítið að heyra formann fjárlaganefndar, sem hafði uppi stór orð um eflingu heilbrigðiskerfisins fyrir síðustu kosningar, tala um „andlegt ofbeldi“ þegar forstjóri Landspítalans bendir enn einu sinni á að fjárveitingar hrökkvi ekki til og séu ekki í samræmi við fyrirheit.

Einhvers staðar sá ég að þarna væri formaðurinn að ganga erinda „greiðenda“. Semsagt þeirra sem borga skattana – að þarna væri vörn gagnvart frekum hagsmunahópum. En það verður að segjast eins og er að freku hagsmunahóparnir eru ekki þarna – í raun ríkir þjóðarsátt um að styrkja heilbrigðisþjónustu í landinu og verja til þess fjármunum.

Freku hagsmunahóparnir eru í röðum stórútgerðarinnar og kvótahafa sem komast upp með að greiða ekki sanngjarnan hlut fyrir afnot sín af auðlindum þjóðarinnar – þeim er enn að takast að koma í veg fyrir að sett verði ákvæði um auðlindir í stjórnarskrá með ítökum sínum í stjórnmálaflokkum. Og þeir eru í fjármálakerfinu þar sem hagnaðurinn er óskaplegur – og þar sem er sífellt verið að leita leiða til að plokka meira fé af almenningi. Vilji menn byggja sanngjarnt samfélag á Íslandi þarf að horfa í þessa átt.

Það er ekki bjóðandi að ár eftir ár búi stofnanir samfélagsins við einhvers konar óttastjórnun frá hendi misviturra stjórnmálamanna og þurfi sífellt að lúta duttlungum þeirra. Þetta er einfaldlega hræðilega vond stjórnsýsla, í henni felst sóun á tíma og kröftum – með svona aðferðum er aldrei hægt að skipuleggja neitt fram í tímann heldur rekur menn stjórnlítið, ár frá ári, sem kannski hentar sumum stjórnmálamönnum ágætlega.

Þannig geta þeir sýnt vald sitt – gert sig breiða, líkt og samfélagið sé komið upp á náð og miskunn þeirra sjálfra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Þáttaröðin „Evrópa brennur“

Thomas Möller skrifar: Þáttaröðin „Evrópa brennur“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Reynir Traustason: Mikil mistök að sameinast Kjarnanum

Reynir Traustason: Mikil mistök að sameinast Kjarnanum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Reynir Traustason: Sonja var ógleymanleg – í ævilöngu sambandi við Onassis

Reynir Traustason: Sonja var ógleymanleg – í ævilöngu sambandi við Onassis
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Guðrún vill minnka allt

Orðið á götunni: Guðrún vill minnka allt