

Í Berlín er tekinn upp þessa helgi sérstök tribute útgáfa af Kontrapunkti, samnorræna sjónvarpsþættinum sem var sýndur með hléum frá 1964-1998. Kontrapunktur var spurningakeppni um klassíska tónlist, afar fræðandi, mjög menningarleg og furðulega vinsæl.
Íslendingar tóku þátt í Kontrapunkti um hríð, ég man eftir keppendum eins og Valdimar Pálssyni, Gylfa Baldurssyni og Ríkharði Erni Pálssyni, en á þessum árum urðu keppendurnir sumir celeb um Norðurlöndin. Ég man að ég gekk að Finna einum á tónleikum í Háskólabíói fyrir margt löngu og spurði:
„Ert þú Mats Liljeroos?“
Mats var líklega yngsti maðurinn sem nokkurn tíma keppti í Kontrapunkti, hann var í sigurliði Finna 1998, en árin áður höfðu Norðmenn nánast einokað keppni sína, enda höfðu þeir í liði sínu mann sem nefnist Kjell Hillveg, hæglátan náunga sem vissi nánast allt um tónlist.
Stjórnandinn var hinn óviðjafnalegi Sixten Nordström frá Svíþjóð – þetta var norræn samvinna eins og hún gerist best. Spurningarnar voru byggðar upp með aðleiðslu, keppendur færðu sig nær höfundi, verki og ártali, og enduðu jafnvel á ópusnúmeri og tóntegund.
Sjálfur gat maður stundum rétt um höfund og tónverk – en restinni náði maður síður. Ég hef aldrei verið sterkur í ópusnúmerunum. En áhorfendur gátu semsagt tekið þátt á sinn hátt, það var ein snilldin við Kontrapunkt.
En nú er semsagt vitnað í Kontrapunkt í samnorrænni tónlistarspurningakeppni sem haldin er í sendiráði Norðurlandanna í Berlín. Þar er áherslan á nútímatónlist, en í íslenska liðinu eru Daníel Bjarnason, Guðný Guðmundsdóttir og Bjarni Frímann Bjarnason.
Þetta minnir mann á hvað Kontrapunktur var dægilegt sjónvarpsefni, rólegt og gott. Það þarf ekki alltaf að vera með þennan asa í sjónvarpi.

Fyrst var Kontrapunkti stjórnað af sænska tónlistarmanninum Sten Broman, það sáum við aldrei hér á Íslandi, þegar þátturinn barst hingað og við fórum að taka þátt var stjórnandinn Sixten Nordström, einnig Svíi.