fbpx
Miðvikudagur 27.október 2021
Eyjan

Ástandið – fanatík og vitleysa

Egill Helgason
Miðvikudaginn 14. október 2015 21:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Grein Þórs Whitehead prófessors persónunjósnir sem beindust að íslenskum konum á fyrstu árum hernámsins í vakti mikla athygli þegar hún birtist í Sögu snemma árs 2014. Greinin var byggð á gögnum sem komu úr fórum Jóhönnu Knudsen og voru geymd á Þjóðskjalasafninu, en þau mátti ekki opna fyrr en 2011.

Þessi tími var kallaður „ástandið“ – það vissu allir hvað átt var við þegar talað var um ástandið. Hrafn Jökulsson og Bjarni Guðmarsson skrifuðu um það bók árið 1989 sem hét einfaldlega Ástandið.

Ég hef nokkrum sinnum vitnað í bókina Úr fjötrum eftir Herdísi Hallvarðsdóttur – Herdís kom eitt sinn og ræddi hana við mig í Silfri Egils. Hún var orðin fullorðin kona þegar hún skrifaði bókina, fór á gamals aldri í nám í Háskóla Íslands og bókin var afrakstur þess. Herdís lýsti því hvernig framkoma hermannanna hefði að vissu leyti verið eins og frelsun frá durtshættinum í íslenskum karlmönnum.

Samfélagið hefði opnast, og nýr heimur blasað við konunum. Meðal hermannanna voru karlar sem kunnu að umgangast konur af kurteisi og hæversku sem sárlega vantaði á Íslandi.

En hið íhaldssama íslenska samfélag brást ókvæða við – það er einföldun að segja að það hafi einungis verið karlaveldið – því siðapostular meðal kvenna voru líka í herferð gegn ástandinu. Að einhverju leyti blandaðist þarna inn í andúð á útlendingum og tortryggni einangraðrar smáþjóðar – sem þó leit afar stórt á sig. Þjóðernishyggjan var býsna stæk – „eigum vér að hætta að vera Íslendingar?“ var spurning sem heyrðist. Minna má á að síðar voru notuð útgöngubönn til að hermenn á Miðnesheiði kæmust ekki í tæri við íslenskar stúlkur – og einnig á þá kröfu íslenskra stjórnvalda að hingað kæmu ekki svartir hermenn.

Í svonefndri ástandsskýrslu sem yfirvöld tóku saman og byggðu á eftirgrennslan Jóhönnu Knudsen eru fáránlegar tölur um fjölda „ástandskvenna“. Þar sagði að vitað væri um 20 prósent kvenna sem væru í ástandinu, þær væru 500 talsins – það þýðir að 2500 konur hafi verið í ástandinu. En nefna má að breska hernámsstjórnin var ekki sammála þessu og mótmælti.

Herdís skrifaði:

Þegar við mættum í skólann um haustið 1940 var okkur sagt að það væri brottrekstrarsök ef við skiptum okkur af hermönnunum….þetta var fanatík og vitleysa. Allar stúlkur sem sáust tala við hermenn, þótt þeir væru kannski bara að spyrja til vegar…. voru bara „Bretamellur “ ….Það voru svo mikilir hleypidómar…

Hápunkti náði þessi herferð gegn „Bretamellum“ í vinnuheimilinu á Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði þangað sem „ástandsstúlkur“ voru sendar. Sú starfsemi varð reyndar ekki ýkja langlíf, en frá henni segir í nýrri heimildarmynd sem nefnist Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum. Sú mynd vekur eðlilega athygli.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, leggur til að hafin verði opinber rannsókn á þessum atburðum. Auðvitað á ekkert í þessu sambandi að liggja í þagnargildi, en um þörfina á slíkri rannsókn má deila. Þeir sem komu að þessum málum voru vissulega úr efstu lögum samfélagsins, en flestir aðalleikararnir eru löngu dánir. Hermann Jónasson sem var forsætisráðherra dó 1976, Vilmundur Jónsson landlæknir andaðist 1972 og Agnar Kofoed Hansen lögreglustjóri 1982.

Meðlimir ástandsnefndarinnar, Sigurbjörn Einarsson, Broddi Jóhannesson og Benedikt Tómasson eru líka látnir fyrir margt löngu og sömuleiðis þrjár konur sem sátu í ástandsnefndinni síðari, Sigríður Eiríksdóttir, Guðrún Pétursdóttir og Aðalbjörg Sigurðardóttir – og jú, í enn einni nefndinni voru silkihúfur eins og Sigurgeir Sigurðsson biskup og Vilhjálmur Þ. Gíslason þáverandi útvarpsstjóri.

Jóhanna Knudsen dó 1950.

En sagan er forvitnileg og áhugavert að sjá púsl raðast saman í heildarmynd. Jóhanna Knudsen virðist hafa verið afar ofstækisfull og hafa gengið lengra en stjórnvöld kærðu sig um. Aðeins einn þingmaður, sósíalistinn Brynjólfur Bjarnason greiddi atkvæði gegn sérstökum unglingalögum sem voru sett vegna ástandsins. Í ágætri ritgerð sem er aðgengileg á netinu segir Íris Cochran Lárusdóttir að Brynjólfur hafi talið að ekki væri hægt að „skapa siðgæði og menningu með lögregluaðgerðum“.

Síðla árs 1942 varð Einar Arnórsson dómsmálaráðherra (hann hafði verið tengdafaðir Halldórs Laxness). Einar hafði betri skilning á mannréttindum en flestir samtímamenn hans og 1943 lagðist vinnuskólinn á Kleppjárnsreykjum af og sömuleiðis ungmennadómstóllinn sem var byggður á áðurnefndum lögum – úrskurðir hans voru beinlínis felldir úr gildi í lok þess árs.

 

Screen Shot 2015-10-14 at 21.15.39

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Færri konur ráðnar í framkvæmdastjórastöður en í fyrra

Færri konur ráðnar í framkvæmdastjórastöður en í fyrra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðrún skilur ekkert í Sjálfstæðismönnum – „Þetta er með slíkum ein­dæm­um, að lög ná ekki yfir það“

Guðrún skilur ekkert í Sjálfstæðismönnum – „Þetta er með slíkum ein­dæm­um, að lög ná ekki yfir það“