Enn einu sinni eru Englendingar við það að detta úr Heimsmeistarakeppni í fótbolta miklu fyrr en þeir sjálfir – og sumir aðrir – áttu von á. Englendingar fara einatt í svona mót með miklar væntingar og verða svo fyrir miklum vonbrigðum.
Í raun kemur þetta ekkert sérstaklega á óvart. England tapaði í kvöld fyrir Uruguay – lið þeirra varð í fjórða sæti á síðasta heimsmeistaramóti og þá áttu þeir leikmann mótsins, Diego Forlan.
Á heimsmeistaramótinu 2010 rétt skreiddust Englendingar upp úr riðli sínum eftir að hafa gert jafntefli við bæði Bandaríkin og Alsír. Þeir töpuðu svo stórt fyrir Þjóðverjum, 1-4, í sextán liða úrslitum.
Þannig að í raun er ekki að búast við neinu af Englendingum. En vegna þess hversu ákaft Íslendingar fylgjast með enska boltanum er oft látið eins og við eigum að halda með þeim – og að þeir séu með lið sem er í allra fremstu röð.
Svo er ekki. Enska fótboltadeildin er borin uppi af erlendum leikmönnum og þjálfurum. Þegar komið er í alþjóðlega keppni sést að innfæddu leikmennirnir eru ekki mikið meira en meðalskussar – það breytir engu hversu margir dálksentimetrar eru skrifaðir um leikmenn eins og Steven Gerrard, Wayne Rooney og David Beckham á Íslandi og bresku götupressunni.
Leikmenn hins fámenna Suður-Ameríkuríkis Uruguay eins og Luis Suarez og Edinson Cavani eru þeim miklu fremri. Í Uruguay búa aðeins 3,3 milljónir manna. En þeir eiga besta forseta í heimi, Jose Mujica, Hann er reyndar mjög kurteis og segir að Englendingar hafi kennt löndum sínum að spila fótbolta.