Ég verð að játa að á fáa útvarpsmenn hef ég hlustað meira á en Casey Kasem.
Hann var maðurinn sem kynnti bandaríska vinsældalistann sem var spilaður vikulega í Kanaútvarpinu – American Top 40. Ég man ennþá hvernig kynningarlagið hljómaði.
Þarna heyrði maður margt af tónlistinni sem maður vildi heyra, en var ekki spiluð nema endrum og eins í Ríkisútvarpinu.
Neil Young, Stevie Wonder, Steely Dan, Carole King. Og allt hitt. Al Green, Marvin Gaye, Elton John, Allman Brothers – og svo var maður ekki eins hrifinn af The Osmonds sem áttu óþægilega oft lög á vinsældalistum.
Ég átti lítið útvarpstæki sem ég stillti upp við rúmið – sofnaði gjarnan út frá Kananum á kvöldin.
Casey Kasem hafði óvenju fína og silkimjúka rödd, gerði þetta afar vel – að amerískum hætti. Hann taldi niður, frá 40 niður í 1 í útvarpsþætti sem tók fjóra tíma að mig minnir.
Hér er Casey Kasem frá 1971, hann kynnir lög með The Hollies, John Denver, Sammy Davis, Þetta er um það leyti að ég hef verið að hlusta á hann.