Ef ég skil rétt ætlar Már Guðmundsson seðlabankastjóri að tilkynna í sjónvarpsþættinum Eyjunni í dag hvort hann sækir aftur um stöðuna.
Hún var auglýst nú í vor og umsóknarfrestur er að renna út.
Nú veit maður ekki hvað hefur gerst bak við tjöldin, en margt bendir til þess að ríkisstjórnin vilji losna við Má – að minnsta kosti framsóknarhelmingur hennar.
Milli Más og Bjarna Benediktssonar mun vera betra samband.
Eitt er þó víst að næsta seðlabankastjóra bíður meira af því sama.
Hann þarf að reyna að hafa hemil á ofþenslu sem er fara af stað í hagkerfinu og er aðallega merkjanlega á húsnæðismarkaði.
Ef verða reist hér fjögur kísiliðjuver eins og virðist stefna erum við að tala um mikla þenslu – þá er varla von á öðru en hressilegum vaxtahækkunum. Það verður erfitt að haldast innan verðbólgumarkmiðs.
Og við erum enn í umhverfi þar sem ríkja gjaldeyrishöft og þar sem peningar lífeyrissjóða er í örvæntingarfullri leit að ávöxtun – að ekki sé talað um erlendu kröfuhafana sem bíða eftir því að fá sitt.
Það þarf líka að hafa hemil á íslensku krónunni – Seðlabankinn fyrir hrun reyndist ófær um það, en raunar er ljóst að krónan færa aldrei að fljóta aftur.
Eftir hverju eru menn þá að leita í fari seðlabankastjóra?