Myndir af stofnfundi Viðreisnar vita ekki á sérlega gott fyrir þessa hreyfingu.
Á myndunum er ekki að finna sérstakt þungaviktarfólk – en talsvert af einstaklingum sem hafa verið óánægðir á útjöðrum hér og þar.
Nú er ekki vitað hvort Benedikt Jóhannesson ætlar að verða formaður flokksins, en yfirleitt er það honum sem er teflt fram.
Svör hans í viðtali við DV vekja ekki traust. Þau eru furðu léttúðug af manni sem ætlar sér eitthvað í stjórnmálum.
Hann segir að menn hafi verið „dálítið plataðir út í Íraksstríðið“.
Að íslenska bankahrunið hafi aðallega verið almenningi og fjölmiðlum að kenna.
Önnur svör Benedikts eru í þessum anda – slöpp og léttvæg.
Manni sýnist líka að á stofnfundinn hafi mætt menn sem er afskaplega mikið niðri fyrir varðandi mál sem geta eyðilagt nýjar stjórnmálahreyfingar. Þeir geta verið sammála um inngöngu í ESB, en þarna eru mál sem brenna heitt á sumum og vekja mikið óþol.
Kvótamálið og verðtryggingin.
Ég hafði líka rangt fyrir mér um daginn þegar ég talaði um að Viðreisn væri gott nafn á stjórnmálahreyfingu. Það er það alls ekki.
Viðreisn er nafn á ríkisstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn leiddi. Hún er partur af sögu þess flokks. En fæstir þekkja þetta núorðið – og í raun bendir nafnið til þess að þeir sem finna það upp séu með hausinn og hugann inni í Sjálfstæðisflokknum og einhverri kremlólógíu þar innandyra. Það er frekar eins og verið sé að kallast á við Björn Bjarnason en unga kjósendur í landinu.