Tvær konur eru í aðallhutverki í Kiljunni á miðvikudagskvöld.
Það er annars vegar Björg Guðrún Gísladóttir. Hún hefur sett saman minningabók sem nefnist Hljóðin í nóttinni. Björg er alin upp í Höfðaborginni sem á sjötta og sjöunda áratugnum var versta fátækrahverfi í Reykjavík. Björg bjó við hræðilegan aðbúnað, mikið heimilisofbeldi og einnig kemur kynferðisofbeldi mikið við sögu. Hún gekk í skóla þar sem var farið illa með börn úr Höfðaborginni og þá krakka sem áttu lítið undir sér.
Hins vegar er það Melitta Urbancic. Saga hennar er mjög heillandi. Hún flutti til Íslands ásamt manni sínum rétt fyrir stríð. Melitta var frá Austurríki, af gyðingaættum, og þurfti að forða lífi sínu undan nasistum. Hún var hámenntuð kona, gekki virta háskóla og iðkaði leiklist og bókmenntir. Úr hámenningunni þurfti hún svo að koma til Íslands, þar sem hún bjó æ síðan með manni sínum, tónlistarmanninum Victor Urbancic. Melitta orti ljóð sem nú eru að birtast á prenti í tvímála ljóðabók sem nefnist Frá hjara veraldar.
Gagnrýnendur þáttarins fjalla um þrjár bækur: Skrifað í stjörnurnar eftir John Green, Marco-áhrifin eftir Jussi Adler-Olsen og Að gæta bróður síns eftir Antti Tuomainen.
Við fáum svo að heyra hverjar eru uppáhaldsbækur Vilhjálms Antons Jónssonar sem sló í gegn um jólin með Vísindabók Villa.