Ég hef starfað býsna lengi við fjölmiðla. Ég hef kynnst einum stjórnmálamanni sem er óskoraður meistari í að höndla fjölmiðla.
Það er Ólafur Ragnar Grímsson. Hann er það enn og hann var það fyrr á ferli sínum.
Þegar Ólafur Ragnar var fjármálaráðherra í tíð Alþýðubandalagins var hann stöðugt í fréttum. Það lá við að væri viðtal við hann í hverjum fréttatíma.
Ólafur notaði ákveðið kerfi.
Hann vissi vel að fréttir þurfa yfirleitt að vera stuttar, að fréttamönnum er gert að halda sig við lengd sem er innan við tvær mínútur.
Og að langar ræður stjórnmálamanna komast ekki að í fréttum – fréttamenn hljóta að klippa þær til til að passa upp á lengdina.
Ólafur gaf manni þrjár útgáfur: Eina stutta ef tíminn í kvöldfréttum væri knappur, eina lengri ef tíminn væri ekki alveg svo naumur og svo þriðju og lengstu útgáfuna ef vera skyldi að fréttin lenti í tíufréttatímanum þar sem voru varla nein lengdarmörk.
Með þessu kom Ólafur í veg fyrir að hægt væri að klippa orð hans, en hann gætti þess líka að sleppa aldrei seimnum svo erfitt væri að finna stað þar sem væri hægt klippa á mál hans og stytta það.
Hann var einfaldlega meistari á þessu sviði – og margt sem aðrir geta lært af honum, og þá ekki bara um alþjóðapólitík.
Ólafur Ragnar var fjármálaráðherra í ríkisstjórninni sem sat frá 1988-1991. Hann var alltaf í fréttunum.