Umfjöllun Kastljóss um rækjuveiðar er mjög athyglisverð. Þetta var í sjónvarpinu í gær, Kastljósið má sjá með því að smella hérna.
Í stuttu máli snýst þetta um hvort eigi að færa rækjukvóta frá bátum sem hafa stundað veiðarnar undanfarin ár yfir á báta sem hafa ekki stundað þessar veiðar. Þar erum við komin út í mjög þrönga og kreddubundna túlkun á kvótakerfinu – þar sem er í raun litið á aflaheimildir sem eign.
Nokkuð öruggt hlýtur að teljast að þessi tilfærsla á kvótanum mælist afar illa fyrir. Það má vera að þröng lagatúlkunin bendi í þessa átt, en réttlætis- og sanngirnissjónarmið varðandi nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar benda í aðra átt.
Ríkisstjórnin hlýtur að íhuga þetta vel. Það hefur nefnilega komið í ljós að stjórnin, sem virkaði sterk á pappírnum, er frekar veik. Hún hefur sólundað sínu pólitíska kapítali að undanförnu af nokkru gáleysi.
Hugsanlega hefur hún ekki styrk til að fara í átök út af máli eins og þessu?