Til að það sé alveg á hreinu – almennt sé ég ekki neina ástæðu til þess að veiða ekki hvali.
Að því tilskildu að hvalastofnar séu ekki í hættu og að hægt sé að koma afurðunum í verð.
Hvalir eru glæsilegar skepnur og merkilegar – en það er mótsagnakennd tegundahyggja að ekki megi drepa hvali en hins vegar megi drepa svín unnvörpum. Eða sauðfé eða hross eða hvaðeina.
Hvalveiðar voru feikileg atvinnugrein frá 19du öld og langt fram á þá 20tu. Þá var gengið svo nærri stofnum að við lá að engir hvalir væru eftir í sjónum. Hvalveiðibann var algjörlega nauðsynlegt til að stöðva slátrunina. Nú horfir þetta dálítið öðruvísi við, hvalastofnar við Ísland hafa náð sér ágætlega á strik. Hvalir sem hér eru veiddir eru ekki í útrýmingarhættu.
En ég virði fullkomlega rétt þeirra sem eru ekki fylgjandi hvalveiðum – það má til dæmis færa ágæt rök fyrir því að hvalaskoðun sé ábatasamari og mikilvægari atvinnugrein en hvalveiðar geta nokkurn tíma orðið. Við munum aldrei aftur upplifa tíma að verði mikil eftirspurn eftir hvalaafurðum. Svo eru aðrir sem vilja ekki láta veiða hvali af því þeir eru svo sætir – sjálf drepum við ekki lóu, álft, hunda eða ketti og leggjum okkur til matar.
Fólk berst fyrir dýravernd alls konar, umhverfisvernd, verndun mýrlendis – og hvala. Svoleiðis virkar fjölradda samfélag. Rök vegast á. Stundum er erfitt að hafa eina einstrengingslega skoðun. Mörkin færast fram og til baka.
Og eins og ég segi, ég er hlynntur hvalveiðum, en ég er líka hlynntur því að Sigursteinn Másson megi berjast gegn hvalveiðum eins og hann lystir. Og það er ömurlegt ef hann þarf að sitja undir ásökunum um „landráð“ vegna þess eins og maður sér í athugasemdum sem hafa verið gerðar við pistil eftir Vilhjálm Birgisson sem sjálfur talar um „skemmdarverk“. Vilhjálmur talar um að þau séu Sigursteini ekki til sóma, en það má snúa ummælunum upp á hann sjálfan – þessi pistill er honum sjálfum ekki til sóma og viðbrögðin við honum eru afar lágkúruleg.