Einhvern veginn finnst manni óhugsandi að snúið verði aftur til gamals tíma með þrjá seðlabankastjóra, að hluta pólitískt skipaða, eins og segir að muni gerast í frétt á Eyjunni.
Það er öruggt að slík aðgerð vekur tortryggni og úlfúð í samfélaginu. Það er nákvæmlega engin þörf á þremur bankastjórum.
Ekki er þar með sagt að ekki megi gagnrýna Seðlabankann, hann er ekki heilög kýr. Vaxtastefna hans hlýtur til dæmis að vekja spurn meðan vextir eru nálægt núllinu í nágrannalöndum.
En ýmislegt má þó virða honum til vorkunnar í því sambandi. Hollvinur síðunnar sendi til dæmis þessa hugleiðingu um Seðlabankann og vextina.
Slagur SÍ er við verðbólguna. Ef laun hækka þá eykst einkaneysla, gengið gefur eftir. Ef vextir lækka þá aukast ráðstöfunartekjur heimila og það verður meiri freisting til þess að taka neyslulán. Aukin einkaneysla, gengið gefur eftir.
Afleiðing, meiri verðbólga því framleiðsla og framleiðni er ekkert að aukast.
Að auki er hluti vandans mjög dýrt fjármálakerfi, og þar eru lífeyrissjóðirnir ekki vandamálið heldur bankarnir.
Seðlabankinn er í vonlausri baráttu á meðan við erum með krónuna sem gjaldmiðil.
Verkefni SÍ við núverandi aðstæður, að halda verðbólgu í skefjum er líklega vonlaust.
Þetta er tafla um vaxtamun er að mig minnir frá 2011. Staðan hefur líklega frekar versnað en batnað fyrir Íslendinga.
Gallinn er sá að við erum hræddari við breytingar en óbreytt ástand, og bakhjarlar núverandi stjórnarflokka telja betra fyrir sig og sína hagsmuni að viðhalda óbreyttri stöðu mála.