Það má segja að nokkur stórtíðindi hafi orðið á fundi hjá Heimdellingum í gærkvöldi.
Þar lýsti heilbrigðisráðherrann, Kristján Þór Júlíusson, því yfir að hann hefði miklar efasemdir um stefnuna í fíkniefnamálum. Frá þessu segir á Vísi.
„Ég er mjög hallur undir þá skoðun að við eigum að reyna að afglæpavæða neysluna í þessum málum,“ sagði ráðherrann.
Ekki er vitað til þess að slík yfirlýsing hafi komið áður frá svo háu stjórnvaldi.
Gamalreyndur blaðamaður, Kristján Þorvaldsson, bregst við þessu á Facebook með svofelldum orðum og hefur mikið til síns máls:
Umræða sem vinstrimenn hafa ekki þorað að taka. Auðvitað er sorglegt að sjá ungmenni fara bak við lás og slá út af fíkniefnum, burðardýr og ungfíkla. Skríllinn gerir samt ráð fyrir því að þessir krakkar hafi kynnt sér refsirammann og frelsissvipting þeirra verði öðrum víti til varnaðar. Hvernig getur mönnum dottið slík vitleysa í hug?