Jón Björnsson talar í útvarp í þættinum Sjónmál og fer stundum á kostum. Hann er fjarska áheyrilegur og grefur upp skemmtilegan fróðleik. Í þætti nýskeð talaði hann um ýmsar lýsingar á Íslendingum. Þar á meðal var þessi lýsing frá Bretanum W.C. Collingwood sem ferðaðist um Ísland 1897, málaði og skrifaði. Jón segir að Íslendingar hafi kveðið rímur og lesið bækur, en reyndar alltaf sömu bækurnar upp aftur og aftur. Það hafi varla verið uppörvandi. Svo hélt Jón áfram:
Prófessor Collingwood … var þvílíkur séntilmaður að hann talaði vel um okkur útífrá og málaði þokkafullar myndir af lífinu hér. En í einkabréfi til Edith Merry, konu sinnar skrifaði hann þetta: „Mér finnst að Íslendingar komi aldrei hreint til dyra. Að einhverju leyti kann það að stafa af því að þeir vilja, líkt og Írar, þóknast öllum, en þó einkum af vissum grautarhaushætti og algjörum skorti á þjálfun til þess að gaumgæfa og fara með staðreyndir. Sé í raun og veru um einhverjar gáfur að ræða eru það helst á bókmenntasviðinu, enda er fjöldi manna kallaður skáld á þessu landi þar sem hver gæs er gerð að háfleygum svani. Aftur á móti virðist engin lifandi sála bera skyn á vísindalegar staðreyndir, efnahagsleg sannindi, stjórnmálalegt raunsæi eða nokkur önnur fræðileg efni. Þeir eru haldnir hverskyns hugarórum.“
Ein af myndunum úr Íslandsför Collingwoods. Þetta er úr Vatnsdal. Hér er svo tengill á pistil Jóns í Sjónmáli.