Umræðan um hvernig eigi að hátta gjaldtöku í ferðaþjónustu er dálítið krampakennd.
Í fyrra hófu eigendur Kersins að rukka aðgangseyri af ferðamönnum sem vilja sjá þessa náttúruperlu. Gjaldið mun vera sem nemur 2 evrum á mann.
Nú ætla eigendur Geysissvæðisins að fara sömu leið – þeir hyggjast setja á 600 króna gjald.
Eitt af því sem kemur á óvart þegar maður ferðast erlendis er hversu gjaldtaka af þessu tagi er útbreidd og verðið nokkuð hátt. Ég hef borgað mig inn á náttúruvætti í Evrópu, þjóðgarða vestan hafs og í fyrra var ég í losti þegar ég þurfti að borga 40 evrur til að koma fjölskyldunni inn í Colosseum í Róm. Það voru hátt í 7000 krónur.
Útlendingar verða tæplega hissa yfir gjaldtöku af þessu tagi og hún er ekki líkleg til að fæla neinn frá, sérstaklega ekki ef tekið er fram að peningarnir fari til verndunar og viðhalds.
Það er svo spurning hvernig þetta rímar við hugmyndir um svokallaðan náttúrupassa. Þær eru hins vegar ómótaðar enn og ólíklegt að þær komist til framkvæmda nú – ef þá nokkurn tíma.
Mesta furðan er reyndar sú að horfið hafi verið frá hækkun virðisaukaskatts á gistingu sem áformuð var í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þá ráku menn upp mikið ramakvein sem olli því að þetta fór að virka sem argasta óréttlæti.
En þetta er sjálfsögð leið til tekjuöflunar fyrir fjárvana ríkissjóð á tíma þegar bóluástand er í ferðamennsku – það gengur ekki alveg til lengdar að launþegar axli allar byrðar.