Kiljan í kvöld er að miklu leyti helguð Þórarni Eldjárn, en liðin eru fjörutíu ár síðan kom út ljóðabókin Kvæði eftir hann. Þetta var fyrsta bók Þórarins og einhver vinsælasta ljóðabók allra tíma á Íslandi.
Síðan hefur Þórarinn lagt gjöva hönd á flestar greinar bókmennta, ritun smásagna og skáldsagna, þýðingar, og svo auðvitað kveðskap – hann hefur gefið út ljóðabækur fyrir bæði fullorðna og börn. Nú í ár hafa komið út eftir hann ljóðabókin Tautar og raular og svo barnaljóðabókin Fuglaþrugl og naflakrafl.
Í þættinum er rætt við Þórarin, fólk sem þekkir hann vel og svo eru sýnd brot úr gömlum þáttum þar sem hann er til umfjöllunar.
Rithöfundurinn Steinar Bragi kemur í þáttinn og segir frá nýrri skáldsögu eftir sig. Þetta er stór bók sem sætir tíðindum, átakamikil saga, spennubók í aðra röndina, þar sem kynferðislegt ofbeldi gegn konum er í brennidepli.
Gagnrýnendur þáttarins fjalla um tvær bækur: Kvíðasnillinga eftir Sverri Norland og Segulskekkju eftir Soffíu Bjarnadóttur.