Sprengiefni í Kastljósi í kvöld.
Ekki síst hvað varðar Ólaf Friðriksson, skrifstofustjóra í landbúnaðarráðuneytinu, sem virðist vera valdamesti maðurinn í íslenska landbúnaðarkerfinu, allavega frá hlið hins opinbera. Réttnefndur kommissar. Formaður í alls konar nefndum og ráðum – til dæmis Verðlagsnefnd búvara og nefndinni sem ákvarðar innflutning á búvörum.
En hefur starfað í stjórnum fjölda fyrirtækja með aðilum úr Mjólkursamsölunni og Kaupfélagi Skagfirðinga sem hann þarf að vera hlutlaus gagnvart í starfi sínu í ráðuneytinu. Ennfremur má nefna að hann var í stjórn Eignarhaldsfélags Samvinnutrygginga – var semsagt tengdur hinum svokallaða S-hópi.
Allt er það rakið í Kastljósinu og er með nokkrum ólíkindum, Ólafur er semsagt í forsvari fyrir hið opinbera gagnvart mönnum sem hann er í klíku með.
Eðlilega var spurt um hæfi hans í þættinum – en Ólafur vildi ekki svara Kastljósi né landbúnaðarráðherra.
Þetta er maður sem afskaplega fáir hafa heyrt minnst á, enda var Kastljós með eldgamla ljósmynd af honum – frá því hann var kaupfélagsstjóri í Kaupfélagi Skagafjarðar.
Horfið með því að smella hérna.