fbpx
Þriðjudagur 01.júlí 2025
Eyjan

Hvernig á Sjálfstæðisflokkurinn að skapa sér sérstöðu í borginni?

Egill Helgason
Miðvikudaginn 8. janúar 2014 20:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Styrmir Gunnarsson kvartar undan því að Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík nái ekki að skapa sér sérstöðu, hann þurfi að aðgreina sig betur frá núverandi meirihluta.

Þetta er ekki alveg auðvelt.

Í eina tíð var Reykjavík djásnið í kórónu Sjálfstæðisflokksins. Hann var alltaf með hreinan meirihluta. Þetta breyttist 1994, síðan þá hefur flokkurinn ekki átt neinn séns í að ná meirihluta aftur. Og hann er afar fjarri því nú.

Það kemur ýmislegt til. Íbúasamsetning borgarinnar hefur breyst, glundroðakenningin svokölluð, sem gekk út á að enginn gæti stjórnað borginni nema Sjálfstæðisflokkurinn, hefur löngu verið afsönnuð, og loks er hið mikla félagslega net sem flokkurinn hafði í borginni, með fyrirgreiðslu og viðamiklum félagaskrám, það er horfið.

Svo er hitt að flokkar eru að miklu leyti sammála um hvernig á að stjórna borgum. Þetta er ekki bara svona á Íslandi. Víða er það svo að borgum er betur stjórnað en ríkjum – borgirnar þróast í að verða öflugar og nokkuð sjálfstæðar heildir. Borgir eru orðnar hreinni, vistvænni og glæpatíðni hefur minnkað. Hugmyndum um skipulag hefur fleygt fram.

Nýtt aðalskipulag Reykjavíkur var samþykkt með atkvæðum 13 borgarfulltrúa gegn 2. Allir flokkar í borginni höfðu unnið að því – líka Sjálfstæðisflokkurinn – og þótt tveir borgarfulltrúar hans hafi ákveðið að vera á móti á síðustu stund er erfitt fyrir flokkinn að fara í allsherjar herútboð gegn aðalskipulaginu, til dæmis undir merkjum einkabílsins. Það er heldur ekki hægt fyrir flokkinn að reka kosningabaráttuna á því einu að vera á móti því að hróflað verði við Reykjavíkurflugvelli – innan flokksins, já, og innan borgarstjórnarflokksins, er fólk sem er eindregið þeirrar skoðunar að flugvöllurinn þurfi að víkja. Að auki hefur verið gert samkomulag um að kæla flugvallarmálið – þar sem er að finna undirskrift innaríkisráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins.

Þá getur maður staldrað við þrjá málaflokka, menntamál, heilsugæslu og skattalækkanir. Skólarnir eru vissulega í krísu, heilsugæslan er í ólestri – og útsvarið er í botni í Reykjavík eins og víða um land. En vandi skólanna verður varla leystur án þess að hækka laun kennara verulega. Sjálfstæðisflokkurinn gæti boðað aukinn einkarekstur í skólum, en slíkar hugmyndir eiga ekkert sérlega upp á pallborðið hjá kjósendum þótt þær gætu verið skynsamlegar.

Hvað varðar heilsugæsluna þá hefur oft verið rætt um að betra gæti verið að borgin tæki hana yfir. Það er þó vandséð að þetta geti verið sérstakt kosningamál.

Átak í menntamálum og heilsugæslu gæti líka stangast á við loforð um skattalækkanir – því líklega myndi þessu fylgja kostnaður. Halldór Halldórsson, sem mun leiða lista Sjálfstæðismanna í vor, hefur þó gefið fyrirheit um lækkun útsvars.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Nytsamlegir sakleysingjar þjóna hagsmunum ríkustu fjölskyldna landsins og fá brauðmola að launum

Svarthöfði skrifar: Nytsamlegir sakleysingjar þjóna hagsmunum ríkustu fjölskyldna landsins og fá brauðmola að launum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þorbjörg Sigríður: Ríkisstjórnin klárar stóru málin – fólk kann að meta breytingarnar sem fylgja stjórninni

Þorbjörg Sigríður: Ríkisstjórnin klárar stóru málin – fólk kann að meta breytingarnar sem fylgja stjórninni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ingu blöskraði – „Er hann að segja að kvótakóngarnir eigi sjávarauðlindina??“

Ingu blöskraði – „Er hann að segja að kvótakóngarnir eigi sjávarauðlindina??“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Tillaga um lækkun fasteignagjalda í Reykjavík óábyrg og ótímabær

Tillaga um lækkun fasteignagjalda í Reykjavík óábyrg og ótímabær