Ég er ekki vanur að hafa þolinmæði til að horfa á langar sjónvarpsseríur. Ég veit samt að það er mikil sköpun í gangi í sjónvarpi – og margt þar frábærlega gert. Hæfileikafólk sem áður hefði skrifað fyrir kvikmyndir eða leikhús, nú eða skáldsögur, er að skrifa fyrir sjónvarp.
Ég var búinn að heyra marga tala um að þættirnir Breaking Bad væru mjög góðir. Einn vinur minn líkti þeim við Glæp og refsingu eftir Dostojevskí.
Um síðustu helgi fór ég að horfa á þessa þætti – og ég ætla að taka stórt upp í mig:
Þeir eru stórkostlegt skáldverk. Ég er ekki viss um að það sé nokkurs staðar verið að skrifa bókmenntir sem eru betri en þetta.
Höfundar Breaking Bad eru allsendis óhræddir við að fást við flókin siðferðisefni. Það er ekki verið að hlífa neinum – stundum er maður hissa hvað þeir vaða beint í hlutina. Getur vissulega verið óþægilegt að horfa. En alvöru skáldverk eru yfirleitt ekki þægileg.
Það má flokka þættina undir þá grein bókmennta sem nefnist natúralismi, þarna er lýst hversdagslegum veruleika fólks en um leið er dregin upp stór mynd af samfélaginu. Þarna koma inn stór þjóðfélagsmál eins og stéttamunur, stríðið gegn fíkniefnum og hið skelfilega heilbrigðiskerfi í Bandaríkjunum.
Það er oft talað um Breaking Bad sem bestu sjónvarpsþætti fyrr og síðar. En, eins og ég segi, þeir eru í raun meira en það – þeir sýna beinlinis fram á að sjónvarp getur verið miðill sem rúmar skáldskap í hæsta gæðaflokki.