Mér skilst að Ray Davies sé sjötugur í dag. Davies var aðalmaðurinn í hljómsveitinni Kinks. Engin fræg hljómsveit frá Bítlatímanum tengist Íslandi jafn nánum böndum.
Kinks komu hingað og héldu nokkra tónleika í Austurbæjarbíói 1965. Blöðin gerðu mikið úr látunum í æskulýðnum sem æpti og stappaði á tónleikunum. Það var vinur minn Baldvin Jónsson sem flutti inn hljómsveitina. Hann var þá sjálfur kornungur maður og mér skilst að hljómsveitin hafi að hluta til búið heima hjá honum.
Og þar voru þeir Davies bræður, Ray og Dave, að semja lög sem urðu síðar fræg.
Það gekk ekki jafn vel þegar Kinks komu aftur til Íslands 1970. Þetta var sama sumar og Led Zeppelin kom hingað. Kinks höfðu nýskeð átt eitt sinn stærsta hittara, Lola, en tónleikarnir heppnuðust ekki vel – og er þessi atburður sjaldan rifjaður upp. Ég var þarna tíu ára ásamt vini mínum. Stemmingin var fjarska daufleg.
Ray Davies hefur síðar komið til Íslands einn og haldið tónleika – mig minnir að hann hafi verið í Laugardalshöll á tónlistarhátíð árið 2000. Ég sá hann svo í Hyde Park í London í fyrra, þá kom hann fram með hljómsveit og söng mörg af sínum frægu lögum. Manngrúinn sem þarna var samankominn var með á nótunum, söng hástöfum með.
Davies er ekki bara lagahöfundur heldur eru textar hans margir frábærir í einfaldleika sínum. Mikið af efninu tengist London – hann er Lundúnaskáld, úr norðurbænum. Best eru ljúfu, dálítið angurværu lögin, eins og Waterloo Sunset og Sunny Afternoon. Hið fyrra kemur alltaf upp í huga minn þegar ég kem til London.
Davies hefur gert margt á ferli sínum. Um 1970 fóru plöturnar hans að vera eins og einhvers konar rokkóperur með persónum og söguþræði. Hann náði að sá aftur í gegn á tíma pönksins og nýbylgjunnar – æskan þá kunni betur að meta hann en flesta músíkantana frá Bítlatímanum. Þá átti hann lög eins og Superman og Better Things.
Alltaf skín í gegn hjá honum húmor og húmanismi – væntumþykja gagnvart fólki og breyskleikum þess. Klassískar eru línurnar úr Waterloo Sunset.
Dirty old river, must you keep rolling
Flowing into the night
People so busy, makes me feel dizzy
Taxi light shines so bright
But I don’t need no friends
As long as I gaze on Waterloo sunset
I am in paradise
Hér eru svo fréttamyndir af Kinks í Reykjavík 1965. Þetta er á sænsku og greinilegt að sænska þulnum finnst Íslendingarnir hálf hallærislegir, á undan má sjá hljómsveitirnar Tempó og Bravó.