Í frétt á Eyjunni þar sem lagt er út af skoðanakönnun sem birtist í Fréttablaðinu í morgun segir að Björt framtíð bíði afhroð í Reykjavík.
Ekki er svo víst að þetta sé rétt.
Björt framtíð er ekki Besti flokkurinn – heldur stjórnmálaflokkur sem hefur fulltrúa á Alþingi og býður fram út um allt land.
Besti flokkur Jóns Gnarrs vann sigur í kosningunum í Reykjavík 2010. Jón lætur sig hverfa úr stjórnmálum, það var bara tímaspursmál hvenær fylgið sem hann fékk leitaði annað. Nú virðist það aðallega fara til Pírata og Samfylkingar – það einhvern veginn liggur í loftinu að Dagur B. Eggertsson sé arftaki Jóns.
Fullt af fólki ætlar að kjósa dag sem myndi ekki kjósa Samfylkinguna.
Það blasir eiginlega þegar við að Björt framtíð verður stærsti sigurvegari kosninganna á laugardag – á landsvísu.
Samkvæmt skoðanakönnunum sem Félagsvísindastofnun hefur gert fyrir Morgunblaðið er Björt framtíð með 20,4 prósent í Hafnarfirði, 17,3 prósent í Garðabæ, 16,8 prósent í Kópavogi, 20,5 prósent á Akranesi og 20,6 prósent á Akureyri. Í Reykjavík stefnir fylgið svo í að vera í kringum 20 prósent.
Þetta þýðir að Björt framtíð mun fá mikil áhrif á sveitarstjórnarstiginu – verður þar líklega stærri en Framsók og varla mikið minni en Samfylking. Það hefur gríðarlega þýðingu fyrir flokksstarfið og framtíð BF.
Það hefur verið fátítt að nýir flokkar á Alþingi nái að gera sig gildandi í bæjar- og sveitarstjórnum, en Bjartri framtíð mun takast það rækilega á laugardag. Og sigrar þess vegna í kosningunum.