Afnám gjaldeyrishafta og uppgjör þrotabúa gömlu bankanna eru eitt stærsta viðfangsefni stjórnmálanna í dag – nú í skugga deilnanna um Evrópusambandið.
Þarna er ekki einungis um það að tefla að losna undan oki kröfuhafa bankanna, heldur er líka spurning hvað verður gert við eigurnar sem eru í þrotabúunum, hvernig þeim verður ráðstafað. Þar eru gríðarlegir hagsmunir í húfi – og tækifæri til að ná í feita bita fyrir þá sem eru í aðstöðu til.
Menn skyldu ekki vanmeta hvaða áhrif þetta hefur á stjórnarsamstarfið og öflin sem eru á bak við stjórnarflokkana.
Það kom á óvart á fundinum í Valhöll fyrr í vikunni að Bjarni Benediktsson talaði um að nú starfaði hópur sem væri að skipuleggja afnám gjaldeyrishaftanna – menn höfðu ekki áður heyrt af þessu starfi og eins er þá spurning um hver sé aðkoma Seðlabankans.
Þórður Snær Júlíusson skrifar um þessi mál í nýjasta tölublað Kjarnans og rekur þær hugmyndir sem eru uppi um þrotabúin og gjaldeyrishöftin – þar er annars vegar Nauðasamningaleiðin og hins vegar Gjaldþrotaleiðin.
Þórður segir að síðari leiðin njóti fylgis innan starfshópsins sem Bjarni upplýsti um, en í honum eru, samkvæmt Þórði:
Sigurbjörn Þorkelsson fjárfestir
Jón Helgi Egilsson, verkfræðingur og hagfræðingur
Jón Birgir Jónsson verkfræðingur
Eiríkur Svavarsson lögfræðingur
Ragnar Árnason hagfræðiprófessor
Reimar Pétursson lögfræðingur
Þarna er vissulega úr vöndu að ráða og þarf auðvitað að búa svo um hnútana að stöðugleika sé ekki ógnað og Íslendingar beri sem minnstan skaða af. Þórður Snær lýkur grein sinni með eftirfarandi varnaðarorðum:
Sú leynd sem ríkir yfir starfinu veldur mörgum áhyggjum. Um er að ræða ákvörðun sem mun hafa gríðarleg áhrif á íslenskt samfélag, óháð því hvor leiðin verður valin. Það liggur líka fyrir að á meðan að afnámsáætlunin er ekki opinber ríkir mikið ójafnræði á markaði milli þeirra sem vita hvað í henni felst og hinna sem vita það ekki. Afnámsáætlunin mun enda hafa verðmyndandi áhrif á allar fjármálavörur. Slíkt ástand þykir ekki til þess fallið að auka trú á íslenskt markaðshagkerfi.