Hún er athyglisverð skoðanakönnunin sem slegið er upp á forsíðu Morgunblaðsins í morgun – og verður varla til að hjálpa Sjálfstæðisflokknum eða Halldóri Halldórssyni sérstaklega.
Þar kemur í ljós að Dagur B. Eggertsson hefur algjöra yfirburði þegar spurt er hver eigi að vera næsti borgarstjóri í Reykjavík. Hann nýtur um helmingsfylgis.
Halldór Halldórsson er með innan við tuttugu prósent og Sigurður Björn Blöndal, sem er í efsta sætinu hjá Bjartri framtíð, ekki með nema tíu prósent.
Samt sýnir sama skoðanakönnun að Björt framtíð er stærsti flokkurinn í borginni, með 29 prósenta fylgi. Milli BF og Samfylkingar eru slíkir gagnvegir að öruggt má telja að flokkarnir haldi áfram samstarfi eftir kosningarnar, það er bara spurning hvor flokkurinn fær borgarstjórastólinn.
Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins hefur mætt miklum andróðri, ekki síst úr Hádegismóum. Halldór Halldórsson og aðrir frambjóðendur á listanum kunna Mogganum sjálfsagt litlar þakkir fyrir þennan forsíðuuppslátt.