Einn Facebook-vinur minn orðaði það svo að stóra Hofsvallagötumálið væri þeirrar gerðar að það gæti fellt meirhluta.
Það held ég samt ekki, við lifum á tíma stöðugra upphlaupa sem gleymast jafnskjótt. Þannig virkar internetið.
En það er annað mál sem gæti haft mikil áhrif, nefnilega Reykjavíkurflugvöllur.
Gríðarlegur fjöldi undirskrifta hefur safnast saman þar sem skorað er á borgarstjórn að hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýri.
Innan Sjálfstæðisflokksins eru menn farnir að hugleiða að þetta geti verið aðalkosningamálið í vor.
Svo rammt kveður að þessu að jafnvel eru uppi vangaveltur um að kalla til landsbyggðarmann til að leiða lista flokksins í borginni í vor.
Sá sem er nefndur í þessu sambandi er Halldór Halldórsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Ef af þessu yrði er líklegt að hart yrði sótt að þeim borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem samþykktu nýtt aðalskipulag og hafa viljað flugvöllinn burt. Þau þyrftu þá kannski ekki að kemba hærurnar Gísli Marteinn Baldursson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir.
Halldór hefur reyndar verið hlynntur aðild að Evrópusambandinu. Slíkt er ekki til vinsælda fallið sums staðar í Sjálfstæðisflokknum og örugglega ekki á Morgunblaðinu.