Íslenskt sjónvarp er stundum borið saman við það sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum.
Það er þó svolítið villandi, enda eru Danir 17 sinnum fjölmennari en við, en Norðmenn 16 sinnum fjölmennari.
Ég gerði lauslega skoðun útvarpsgjöldum með því að gúgla smá.
Í fyrra var útvarpsgjaldið í Noregi 2680,50 norskar krónur á ári. Það gera um 53 þúsund íslenskar krónur.
Árið 2011 sé ég að 4,5 milljarðar norskra króna runnu til NRK, norska ríkisútvarpsins. Það eru 90 milljarðar íslenskra króna.
Mér sýnist að Danmarks radio hafi fengið 3,9 milljarða danskra króna 2011 eða sem nemur 86 milljörðum íslenskra króna.
Útvarpsgjaldið í Danmörku er svipað og í Noregi eða jafnvirði 53 þúsund íslenskra króna á ári.
Danmarks Radio fór þó heldur illa að ráði sínu því það hefur eytt 4,7 milljörðum danskra króna eða sem nemur 103 milljörðum íslenskra króna í nýjar höfuðstöðvar. Það hefur verið umdeilt.
Útvarpsgjaldið á Íslandi er 18.800 krónur á ári. Það sem hefur gerst hér er að stjórnmálamenn hafa tekið hluta útvarpsgjaldsins, semsagt ekki skilað því öllu til Ríkisútvarpsins. Samkvæmt fjárlögum er gert ráð fyrir því að Rúv fái 3,1 milljarð króna í sinn hlut árið 2013. Við það bætast nokkrar auglýsingatekjur, en eins og vitað er standa deilur um hvort Rúv skuli vera á auglýsingamarkaði.
Það er dálítið merkilegt að skoða þetta í ljósi höfðatölureglunnar. Við sjáum að bæði NRK og DR hafa næstum 30 sinnum hærri fjárveitingu en Ríkisútvarpið íslenska. En eins og áður segir eru þessar þjóðir 16-17 sinnum fjölmennari en við. Stofnanirnar fá semsagt meiri peninga á hvern haus.