Nú er komið að hinu árlega menningarnæturtuði.
Menningarnótt er ágæt, en það er of mikill æsingur í kringum hana og troðningur.
Það helgast ekki síst af því að reynt er að koma stórri dagskrá fyrir á einum stuttum degi.
Tugþúsundir manna koma í bæinn – og svo endar allt í stórum rokktónleikum svo ekki heyrist mannsins mál í Miðborginni, flugeldasýningu og fylleríi.
Eftir að hafa fylgst með þessu mörg ár sem íbúi í Miðbænum hef ég fyrir löngu komist að því að best færi á því að teygja Menningarnótt yfir helgi. Byrja á föstudegi, enda á sunnudegi.
Þá kæmist miklu fleira fólk yfir að sjá ýmis menningaratriði sem hafa verið undirbúin, oft af kostgæfni, en fara gjarnan fyrir ofan garð og neðan í flýtinum og æsingnum.