Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir endurheimti aldrei fylgið sem hún naut á fyrstu mánuðum sínum. Það fjaraði fljótt undan henni, og eftir það varð líf hennar eintómur barningur.
Svona er líf stjórnmálamanna þessa dagana.
Stjórnarandstaða tekur við af stjórn og er fljótt búin að ávinna sér jafn miklar óvinsældir.
Við höfum dæmin frá Frakklandi, Spáni, Grikklandi, Danmörku, Írlandi, Bretlandi – jú, og miklu víðar.
Ein undantekning er þó, Angela Markel í Þýskalandi, hún heldur velli hvað sem tautar og raular. Flokkur Merkel virðist nær öruggur með að vinna þingkosningar í september. Það er ekki að spyrja að þýska stöðugleikanum.
Vinsældir ríkisstjórnarinnar íslensku sem tók við í vor fara stöðugt minnkandi og ekki síst fylgi Framsóknarflokksins. Stjórnarliðar skýra þetta með óþolinmæði kjósenda.
En þá óþolinmæði er ekki bara að finna á Íslandi, hún er alþjóðlegt fyrirbæri nú á tímum efnahagsörðugleika. Vandi ríkisstjórna er líka sá að þær geta sáralítið gert, völd þeirra eru mjög takmörkuð – yfirleitt beygja þær sig bara fyrir hagstærðunum. Þeir eru fáir sem ná völdum og endast til að vera í uppreisn gegn ríkjandi kerfi.
Ekki bætir úr þegar stjórnarflokkar hafa lofað einhverju sem þeir geta trauðla staðið við og gera svo hugsanlega eitthvað allt annað, eins og virðist vera uppi á teningnum hér. En það er heldur ekki einsdæmi eins og málum er háttað í veröldinni.