Sagt er frá mikilli örtröð sem varð þegar Hamborgarabúllan opnaði á Marylebone High Street í London undir nafninu Tommi´s Burger Joint.
Það er gleðiefni fyrir eigendur staðarins. Tommi er flinkur veitingamaður.
Áður var í þessu húsnæði veitingahús sem við nefndum dapra Grikkjann.
Ég sá aldrei neinn fara inn á þennan stað. Hann var líka mjög gamaldags. Á hverjum degi klæddu þjónarnir sig upp í búning, annar var í hvítum jakka, hinn í svörtum – báðir með slaufur. Borðin voru með hvítum dúkum, en allt yfirbragðið var mjög þungt – að maður segi ekki þunglyndislegt.
Staðurinn leit út fyrir að hann hefði verið þarna lengi, en ekki þróast með tímanum.
En ég verð að viðurkenna að ég fann alltaf dálítið til með þessum döpru Grikkjum. Ekki þó nóg til að borða hjá þeim.
Nú er bið þeirra eftir matargestum á enda. Tommi er tekinn við og fólkið stendur í biðröð við þetta horn sem áður sást varla hræða.