Í nýjasta hefti The Economist birtist merk forsíðugrein. Hún fjallar um þá staðreynd að glæpatíðni fer mjög lækkandi í hinum efnaðri hluta heimsins.
Þetta er þvert á það sem margir ætluðu að myndi gerast. Því var haldið fram að glæpir myndu aukast með breyttu fjölskyldumynstri og sökum þess að innflytjendum fjölgar.
En hið þveröfuga hefur gerst, eins og segir í leiðara blaðsins. Borgir á Vesturlöndum eru mun öruggari en þær voru fyrir fáum áratugum. Sumum tegundum af glæpum hefur nánast verið útrýmt.
Blaðið veltir fyrir sér ástæðum þessa. Löggæsla hefur batnað, eftirlit á götum hefur aukist, til dæmis með myndavélum. Fíkniefnaneysla í stórborgum er ekki jafn mikill skaðvaldur og áður.
Í leiðaranum er hvatt til þess að haldið verði áfram á braut fyrirbyggjandi aðgerða gegn glæpum í stað þess að beita hörðum refsingum og fangelsisdómum. Segir að bandarísk fangelsi séu full af gömlum mönnum, sem voru ógn við samfélagið á yngri árum en eru það ekki lengur, og fíkniefnaneytendum sem eru ekki hættulegir öðrum en sjálfum sér. Fangelsiskerfið sé þannig uppbyggt að þeir sem lendi þangað einu sinni séu í mikilli hættu að brjóta af sér aftur og aftur.