Ísland hefur fengið margvíslegt orð á sig erlendis sem er ekki beinlínis verðskuldað.
Maður finnur þetta fljótt eftir að maður kemur út fyrir landsteinana.
Það er til dæmis þetta með að hér hafi almenningur ekki ekki þurft að bera neinar byrðar vegna fallinna banka, að stjórnmálamenn hafi verið dæmdir og fangelsaðir, sem og bankamenn.
Að hér hafi verið skrifuð ný stjórnarskrá og verið gerð bylting sem leiddi til stórkostlegs uppgjörs.
Margsinnis hef ég lent í að reyna að skýra út fyrir erlendum fjölmiðlamönnum að þetta sé nú ekki svona einfalt, en það er verra þegar maður heyrir þetta frá fólki sem maður hittir bara úti á götu. Þá nennir maður ekki endilega að leiðrétta vitleysurnar.
Þannig að margt af þessu stendur – að minnsta kosti í bili.
Ein þjóðsagan um Ísland er að hér sé land sem leggi mikla rækt við upplýsingafrelsi.
Ástæðan fyrir þessu eru tengsl WikiLeaks við Ísland, svokölluð IMMI-stofnun sem sett var á laggirnar og þingsályktun um upplýsingamál sem nú er vitnað í vegna máls Edwards Snowden.
Staðreyndin er samt að þarna hefur aldrei orðið barn í brók – Ísland er engin paradís upplýsingafrelsis og verður ekki.