Það er rétt, plastpokar eru andstyggilegir.
Þeim fylgir sóun og mengun. Til dæmis eru úthöfin full af plasti sem eyðist ekki.
Plastflöskur eru ekki betri. Í raun er skömm að því að nær allir drykkir skuli vera komnir í plastflöskur.
Víða erlendis eru plastpokar bannaðir – og reyndar var samþykkt á íbúaþingi á Akureyri síðastliðinn vetur að stefnt skyldi að Akureyri yrði plastpokalaus bær.
Og nú er farið að boða daga án plastpoka. Það fylgir sögunni að Íslendingar noti um 50 milljón burðarpoka úr plasti á hverju ári.
Málið eru pokar eins og Baggu. Þetta eru níðsterkir, nánast óslítanlegir pokar, úr nælonefni. Það er hægt að brjóta þá saman þannig að ekkert fer fyrir þeim. Þeir eru fisléttir. Það er hægt að henda þeim í þvottavél.
Það er í raun ekkert mál að taka þá með út í búð. Þeir rúma meira en plastpokar og það er auðveldara að bera þá. Það er líka hægt að nota þá undir íþróttaföt og sundföt, eða taka þá með upp í sveit eða á ströndina.
Baggu burðarpokar. Þeir fást meðal annars í Heilsuhúsinu.