Einn leiðtogi Framsóknarmanna sagði í Silfri Egils ekki löngu fyrir kosningar að nauðsynlegt væri að koma hagvexti upp í 4-5 prósent á ári til að koma íslensku samfélagi aftur á gott ról.
Það er í raun erfitt að mótmæla þessu beinlínis, við erum að dragast illilega aftur úr nágrannalöndunum hvað varðar kaup og kjör og ýmsa innviði samfélagsins.
En ólíkt því sem var látið í veðri vaka er enginn 4-5 prósenta hagvöxtur í kortunum, það er líklegra að hann verði vel undir 2 prósentum.
Fjárfestingar í hagkerfinu hafa ekki verið að vaxa. Um daginn var óskaplegur fögnuður yfir því að erlent fyrirtæki kom með 600 milljónir króna til Íslands – það eru smáaurar. Annars eru það aðallega útrásarvíkingar sem eru að koma heim með peningana sína á afslætti frá Seðlabankanum.
Sá hagvöxtur sem við fáum verður vegna makrílveiða og ferðamanna.
Gallinn við makrílinn er að hann getur haft afar vond áhrif á lífríki sjávar og annan sjávarafla. Makrílsprengingin bendir til óstöðugleika í hafinu.
Og hvað varðar alla erlendu ferðamennina sem hingað koma þá virðumst við vera nokkuð vanbúin til að taka á móti þeim. Víða um landið komast þeir varla á klósett. Kannski erum við að komast að ákveðnum þolmörkum í ferðamennskunni?
Stóriðjuverin, sem sagt var að síðasta ríkisstjórn stæði í veginum fyrir, virðast ekki ætla að rísa í bráð. Ástæðan er einfaldlega sú að Landsvirkjun getur ekki skaffað nógu ódýra orku. Þetta hefur sáralítið með stjórnmálin hér innanlands að gera – álfyrirtæki geta eða vilja ekki borga það orkuverð sem við þurfum.
En Íslendingar þurfa virkilega að spýta í lófana ef við eigum ekki að horfa upp á slæm lífskjör, atgervisflótta og hnignandi innviði næsta áratuginn eða lengur. Það verður ekki lagað með niðurskurði eða með því að framlengja gjaldeyrishöft um ókomna tíð.
Einna raunhæfasta hugmyndin er sú að leggja sæstreng fyrir orku til Bretlands. Landsvirkjun er mjög áhugasöm um þetta. Þarna fæst afar gott verð fyrir orkuna og enn betra vegna þess að hún telst vera „græn“. Þetta er stór fjárfesting, en ef hún telst vera hagkvæm ætti ekki að vera vandamál að fjármagna hana. Arðinn er svo hægt að nota í ýmsa hluti, til að lækka skatta, í heilbrigðiskerfið, til að greiða niður skuldir eða hækka laun.